09.01.1945
Sameinað þing: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (5306)

118. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h.f.

Sigurður Kristjánsson:

Fjarri fór því, að ég hefði neitt við yfirlýsingu hæstv. ráðh. að athuga, hvað þetta mál snertir. En ég vil ekki láta þá hefð sigra, að ekki sé virtur þingvilji, sem birtur er í formi heimildar. Þegar svo ber undir, að ríkisstj. óskar heimildar og þing veitir, er henni í sjálfsvald sett, hvort hún notar hana. En þegar Alþingi á frumkvæðið og notar þetta kurteislega form til að birta stjórninni vilja sinn, ber henni að líta á það sem ótvíræðan þingvilja. Atvik og breyttar ástæður geta auðvitað hindrað framkvæmd slíkrar heimildar, og er heimildarformið heppilegt, þegar búast má við breyttum ástæðum.

Ég skal játa, að stundum hef ég tekið það ráð, þegar ég hef séð andúð ríkisstj. gegn máli, að hverfa frá heimildarformi, sem mér hefði þar raunar þótt sama bezt, og bera málefnið fram í formi áskorunar eða laga, en ekki vildi ég, að reglan yrði, að menn neyddust til þess. Það ætti ekki að gera, nema sýnt væri, að ríkisstj. ætlaði ekki að framkvæma veitta heimild. Ég veit, að eins og hún nú er orðuð, þá hefur ríkisstj. það í valdi sínu, hvort hún framkvæmi heimildina eða ekki. Það kemur þá í ljós, hvort sá skilningur er ríkjandi hjá ríkisstj., að henni beri ekki skylda til að taka þingviljann til greina, ef hann er ekki látinn í ljós í þingskipunarformi.