14.11.1944
Efri deild: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

70. mál, heilsuverndarstöðvar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Frv. þetta er samið af landlækni í samráði við berklayfirlækni og tryggingaryfirlækni. Hefur frv. legið fyrir Nd., sem samþ. það óbreytt, eins og það var lagt fram þar. Heilbr.- og félmn. hefur athugað frv. á nokkrum fundum og þótti rétt að leita umsagnar þeirra aðila, sem frv. snertir mest og unnt var að ná til á skömmum tíma, en það voru bæjarráð Reykjavíkur og Sjúkrasamlag Reykjavíkur, sem gert er ráð fyrir, að beri að verulegu leyti kostnaðinn af þessum ráðstöfunum, og enn fremur heilsuverndarstöðin Líkn, sem haft hefur þessa starfsemi með höndum hér í bænum og gert er ráð fyrir, að hafi hana framvegis. Þessir þrír aðilar hafa eindregið mælt með því, að frv. verði að l., enda hygg ég, að það sé nokkurn veginn samhuga álit allra þeirra, sem kynni hafa haft af starfsemi heilsuverndarstöðva, þar sem þær hafa starfað, að — það sé fjarri öllu lagi að leggja slíka starfsemi niður. Segja má, að sú skoðun ryðji sér til rúms, að í heilbrigðismálum beri ekki sízt að leggja áherzlu á heilsuvernd og fylgjast með heilsufari barna strax frá fæðingu, til þess að hægt sé að gera nægilega snemma ráðstafanir til varna, sem nauðsynlegar þykja, en slíkt hefur einmitt verið aðalstarfsemi þessara heilsuverndarstöðva. Að vísu hefur starfsemin að mestu leyti verið í sambandi við berklavarnir, enda þörfin þar mest aðkallandi, þótt ýmsar þessara heilsuverndarstöðva hafi snúið sér að öðrum verkefnum í sambandi við sjúkrasamlög, og þá sérstaklega að heilsuvernd ungbarna. Í grg. telur landlæknir, að eitt af því, sem þurfi að gera í sambandi við að tryggja áframhaldandi starfsemi heilsuverndarstöðva, sé að setja fastar reglur um það, hverjum beri að inna af hendi greiðslur til starfseminnar. Yfirleitt hefur þessari starfsemi verið haldið uppi með fjárframlögum frá hlutaðeigandi bæjarfélögum og sjúkrasamlögum og með styrk úr ríkissjóði. Engin lagaskylda hefur hvílt á neinum þessara aðila til að leggja fram fé til starfseminnar, og vegna þess hefur því orðið nokkur ágreiningur um það, hverjum beri að leggja það fram. Nú er í frv. eins og það liggur fyrir kveðið svo á í 4. gr. þess, að ríkissjóður skuli greiða styrk til rekstrar heilsuverndarstöðva og megi hann nema allt að þriðjungi eðlilegs kostnaðar að mati ráðh. Kostnaður af rekstrinum að öðru leyti skal skiptast að jöfnu milli hlutaðeigandi bæjarsjóðs og hlutaðeigandi sjúkrasamlags. N. telur, að þar sem ein meginástæðan fyrir því, að frv. er borið fram að dómi landlæknis, sé sú, að nauðsynlegt sé að setja fastar reglur um skiptingu rekstrarkostnaðar, þá sé eðlilegt, að svo sé gert í l. Það verður það hins vegar ekki, ef aðeins er heimild fyrir hlutaðeigandi ráðh. á hverjum tíma til að greiða allt að þriðjungi kostnaðar, vegna þess að af því leiðir, að hann getur minnkað fjárframlög úr ríkissjóði og gert hinum aðilunum að greiða meiri hlutann. Heilbr.- og félmn. hefur því orðið sammála um það að leggja til, að þessu verði breytt á þann veg, eins og segir í 2. brtt. á nál., um að 4. gr. frv. orðist svo:

„Kostnaður af rekstri heilsuverndarstöðva skiptist að jöfnu á milli hlutaðeigandi bæjarsjóðs, hlutaðeigandi sjúkrasamlags og ríkissjóðs.“

Mér þykir rétt að vekja athygli á því, að í grg. frv. hefur landlæknir varað við því, að þessi leið yrði farin, og telur, að af því leiði nokkra hættu fyrir ríkissjóð, sem er í því fólgin, að leitazt verði við, meira en góðu hófi gegnir, að flytja á rekstrarkostnað heilsuverndarstöðvanna ýmislegt, sem ætti að flytja annars staðar. Ég hygg, að það sé ástæðulaust að gera frekar ráð fyrir þessu í þessu tilfelli heldur en í öðrum, þar sem ákveðið er, að rekstrarkostnaði sé skipt hlutfallslega á milli ríkissjóðs og annarra aðila, enda er einn maður í stjórn heilsuverndarstöðvarinnar, sem skipaður er af stj. samkv. till. berklayfirlæknis, og hefur hann eftirlit með því, að á engan hátt sé reynt að koma óeðlilegum kostnaði á rekstrarkostnað heilsuverndarstöðvanna til þess að þar fáist þátttaka úr ríkissjóði. — Aðrar breytingar sé ég ekki ástæðu til að skýra frekar. 1. brtt. er við 3. gr. frv., og fjallar hún um það, að auk þess sem almennt viðurkenndu líknarfélagi megi fela rekstur heilsuverndarstöðva, skuli einnig mega fela hann sjúkrasamlagi á staðnum. Í smærri kaupstöðum hygg ég, að það geti oft verið hentugra að hafa það fyrirkomulag, en hins vegar er það á valdi stjórnar heilsuverndarstöðvarinnar að ákveða, hvort svo er eða ekki. — 3. brtt. er við 5. gr., og er hún afleiðing af brtt. þeirri, sem lagt er til, að gerð verði við 4. gr., sem ég drap hér á áðan. — Einn nm. (BrB) hefur ritað undir nál. með fyrirvara, og er mér ekki fullkunnugt um, í hverju sá fyrirvari er fólginn. Einn nm. (HermJ) mætti ekki á fundi n., þar sem hann var ekki staddur í bænum, er málið var afgr. Leggur n. því til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég hef greint frá hér að framan.