24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í D-deild Alþingistíðinda. (5355)

266. mál, samningur við Bandaríkin um loftflutninga

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Í þessari þáltill. á þskj. 928 er farið fram á, að Alþingi heimili stj. að gera samning við stjórn Bandaríkja Ameríku um loftflutninga samhljóða því, sem prentað er sem fylgiskjal með þáltill. Í upphafi þessa fylgiskjals segir, að með tilliti til ályktunar þeirrar, sem undirrituð var 7. desember 1944 á alþjóðaflugmálaráðstefnunni í Chicago, séu stjórnir beggja ríkja, sem að samningnum standa, ásáttar um, að stofnun og þróun flugrekstrar milli landa þeirra skuli hlíta þeim ákvæðum, sem þar segir. Síðan kemur samningurinn sjálfur, og er ætlazt til, að stj. fái heimild hjá Alþingi til að undirrita hann.

Þetta mál er kunnugt öllum hv. þm. Það hefur verið rætt á lokuðum fundi í Alþingi nokkuð ýtarlega, auk þess sem með það hafa farið sérstakir fulltrúar þingsins, sem var falin sú málsmeðferð á áðurgreindum lokuðum fundi, og enn fremur hefur utanrmn. haft málið til meðferðar. Hafa þessir aðilar orðið sammála um, að eðlilegt væri, að slíkur samningur væri undirritaður.

Ég held, að ég skýri málið ekki fyrir hv. þm. frekar en orðið er. Allir hv. þm. hafa kynnt sér málið svo vel, að ég tel mig ekki bæran um að bæta þar um. Ég endurtek aðeins það, sem ég hef áður bent á á lokuðum fundi í Alþingi, og það, sem mér hefur fundizt einnig koma fram hjá öðrum hv. alþm. úr öllum flokkum Alþingis, sem á þetta hafa minnzt, að samkvæmt beinum og ótvíræðum ákvæðum samningsins er heimilt af hendi hvors aðila um sig að segja samningnum upp með eins árs fyrirvara. Það er öllum kunnugt, að Íslendingar hafa litla reynslu í þessu efni og vita þess vegna kannske ekki til hlítar, hver kostur og löstur kann að fylgja slíkum samningi, og af þeim ástæðum leggja menn nokkuð upp úr því að hafa þetta ótvíræða uppsagnarákvæði í samningnum. Það er vitað mál, að Íslendingar hafa lengi óskað að verða ekki utan gátta, þegar flugsamgöngur hefjast milli landa, og að því leyti hefur það verið kærkomið tækifæri Íslendingum að gefast kostur á að gerast aðilar að þessum samningi, sem, enda þótt hann sé aðeins gerður milli tveggja þjóða, Bandaríkjanna og Íslands, er þó ætlaður sem liður í stærri flugsamgöngum og víðtækari en milli þessara landa.

Ég sé ekki ástæðu til að flytja einhverja spádóma um það, hverja þýðingu slíkar samgöngur geta haft fyrir Íslendinga. Ég sé að sjálfsögðu í þessu sambandi ekkert lengra fram í tímann en aðrir hv. alþm. Hitt fer ekki dult, að Íslendingar hafa mjög látið í ljós þá von, að Íslendingar megi hafa margvíslegan hagnað af auknum flugsamgöngum, og ég hef tilhneigingu til að aðhyllast vonir þeirra bjartsýnustu í þeim efnum. Það mætti vel vera, að seinna meir þætti það með merkari viðburðum, þegar slíkur samningur er undirritaður um að hefja flugsamgöngur milli Bandaríkjanna og Íslands og svo frá Íslandi áfram til Evrópu. Það má vel vera, að eftir 10–20 ár eða jafnvel skemmri tíma þyki þessi dagur merkur dagur, þegar Alþingi ákveður fyrir sitt leyti að taka tilboði, sem Íslendingum hefur verið gert um að verða aðilar að slíkum samningi, en sú skoðun byggist á spádómum, sem ég er ekki bærari um að bera fram en aðrir hv. alþm. Ég tel, að Íslendingum beri að gerast aðilar að þessum samningi, vegna þess, eins og ég hef áður greint, að hér virðist ríkja eining um það, hvaða hagsmuni Íslendingar geti haft af slíkum samningi, og svo er hitt, sem líka hefur verið álitið, sem ég sé ekki neitt til fyrirstöðu, að komi opinberlega fram, að við alþm. höfum í okkar hópi á lokuðum fundi talið, að það gæti a. m. k. svo farið, ef Íslendingar vildu ekki gerast aðilar að slíkum samningi, þegar það stendur þeim til boða, þá gæti það orðið til þess, að flugleiðin yrði lögð að meira eða minna leyti fram hjá okkur, og það mundi vera ákaflega gagnstætt því, sem þjóðin óskar í þessu efni.

Með hliðsjón af þessu annars vegar og hins vegar af því, að ef samningurinn þætti vankantaður, þegar dómur reynslunnar félli á hann, þá höfum við sjálfsagðan rétt til að segja honum upp samkvæmt ótvíræðum fyrirmælum 8. gr., þá er það skoðun stj., studd við álit, sem undirbúningsnefnd, sem var kosin til að fjalla um það, einnig utrmn. og álit lokaðs fundar í Alþingi, að þennan samning beri að undirrita. Vænti ég því, að Alþingi fallist á það.

Sé ég svo ekki ástæðu til að láta fleiri ummæli fylgja till. að sinni.