29.01.1945
Sameinað þing: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (5359)

270. mál, vatnsveitur

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Þessi till. er þess efnis að skora á ríkisstj.: í fyrsta lagi að gera yfirlit um, hver af kauptúnum og kaupstöðum landsins búa við óviðunandi neyzluvatn, og í öðru lagi að láta undirbúa löggjöf um stuðning ríkisins við vatnsveitur fyrir þau kauptún og kaupstaði, sem er algerlega um megn að ráðast í slík fyrirtæki af eigin rammleik.

Ég get sparað mér ýtarlega framsöguræðu og vil vísa í meginatriðum til grg., sem er allýtarleg. Það er kunnugt, að í allmörgum kauptúnum landsins eru hinir mestu erfiðleikar um neyzluvatn, ýmist þannig, að það vatn, sem notað er, er meira og minna óhæft til drykkjar, eins og rannsókn hefur sýnt í mörgum tilfellum, og á hinn bóginn, að víða er svo mikill skortur á vatni, að til stórvandræða horfir. Sem betur fer eru í sumum og allmörgum kauptúnum og kaupstöðum á landinu þegar komnar viðunandi vatnsveitur, sem aðeins hefur orðið á þá lund, að viðkomandi héruð hafa getað klofið þetta sjálf, en annars staðar er aðstaðan svo erfið, að útilokað er, að fámenn byggðarlög geti gert það af eigin rammleik.

Á undanförnum þingum hafa verið bornar fram till. í sambandi við fjárl. um stuðning við ýmsar vatnsveitur, ýmist sem beinar styrkbeiðnir eða ríkisábyrgðir. Það hefur verið svo að segja föst regla hjá Alþ. að synja um allar slíkar aðstoðarbeiðnir. Við flm. teljum hins vegar, að svo búið megi ekki lengur standa, að jafnmiklu menningar- og heilbrigðismáli sem hér er um að ræða, að íbúar landsins hafi aðgang að sæmilegu drykkjar- og neyzluvatni, sé enginn gaumur gefinn og að slíku ástandi megi ekki lengur við halda.

Till. fer þess vegna fram á, að sett verði löggjöf um þessi efni, en áður verði reynt að fá yfirlit um, hve margir staðir kæmu hér til greina, og eftir því sem unnt er um kostnaðinn við þær vatnsveitur og hvaða úrræði kæmu helzt til greina á hverjum stað. Sums staðar hefur verið reynt með borunum að fá neyzluvatn; sums staðar hefur það ekki borið árangur og annars staðar talið tilgangslaust eftir athugun á jarðveginum. Yfirleitt verður væntanlega leiðin sú að ná neyzluvatni úr lindum í nágrenni kaupstaðanna, en leiðin er það dýr, að ógerningur er fyrir íbúana undir því að rísa.

Ég vænti þess, að þessi till. um undirbúning og athugun á málinu fái góðar undirtektir í hv. d. og hæstv. ríkisstj. verði, ef till. verður samþykkt, við þessari áskorun um að undirbúa löggjöf um stuðning ríkisins við vatnsveitur fyrir næsta þing.