13.12.1944
Sameinað þing: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (5363)

222. mál, virkjun Andakílsár

Skúli Guðmundsson:

Eins og vikið var að í ræðu hv. frsm. (PO) um till., þá hefur þetta mál áður verið hér til meðferðar í þinginu. Á aukaþinginu langa veturinn 1942–43 var flutt frv. um virkjun Andakílsárfossa. Það hlaut ekki afgreiðslu þá. En 14. apríl 1943 var samþ. till. um fjáröflun til útvegunar efnis til virkjunarinnar. Þar var ríkisstjórninni veitt heimild til að leggja fram fé úr ríkissjóði eða ábyrgjast lán til smíða á vélum og nauðsynlegu efni í virkjunina. Það lítur út fyrir, að ríkisstjórnin hafi notað þessa heimild á þann veg að ganga í ábyrgð fyrir láni, en ekki þannig að leggja fram fé til að kaupa efnið. En það var henni heimilt. Í þeirri þál., sem hér liggur fyrir, er farið fram á ábyrgð til að koma virkjuninni lengra áleiðis. Það má vera, að um annað sé ekki að ræða, því að eins og nú standa sakir hefur ríkissjóður ekki handbært fé til að leggja fram til slíkra hluta.

Ég vildi aðeins við þessa fyrri umr. láta það koma fram, að ég tel það réttast, að það sé ríkið, en ekki sérstakt félag, sem kemur upp þessari virkjun, ekki einungis þessari 5000 hestafla virkjun, heldur þarf að vinna að því, að fullnaðarvirkjun Andakílsárfossanna komist í framkvæmd, svo fljótt sem ástæður leyfa.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur mþn. í raforkumálum nú skilað áliti til ríkisstjórnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið setji upp stórt raforkukerfi um landið. Þetta frv. mþn. hefur ekki enn verið lagt fyrir Alþ., þótt þess hefði mátt vænta. En ég geri ráð fyrir, að það verði gert nú næstu daga eða þá í byrjun næsta þings, annaðhvort frá einstökum þm. eða frá ríkisstjórninni. Eins og ég sagði áðan, vildi ég, að sú skoðun kæmi hér í ljós, að það væri heppilegast, að ríkið annaðist þessar framkvæmdir þegar frá upphafi. En hins vegar er vafalaust rétt að greiða fyrir því, eftir því sem hægt er, að efnis og annars, sem með þarf, sé aflað. En það kemur að sjálfsögðu til athugunar í n., hvort henni finnst ástæða til að gera brtt. við þáltill. eða ekki.