14.11.1944
Efri deild: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

70. mál, heilsuverndarstöðvar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Um þetta atriði hefur ekki verið rætt í heilbr.- og félmn., en ég minnist þess, að er frv. kom til meðferðar hjá tryggingarráði, þá var nokkuð um þetta rætt, og varð niðurstaðan sú, að að svo stöddu mundi tæplega gerlegt að ákveða að setja heilsuverndarstöð í hvert fyrirskipað læknishérað, þar sem á því væru ýmis tormerki, vegna þess hversu byggðin er dreifð og samgöngur erfiðar, en aftur á móti mundu þau héruð, sem næst liggja kaupstað, þar sem í er heilsuverndarstöð, snúa sér til hennar. Ég vildi benda á, að í 5. gr. er heimild fyrir ráðh. að staðfesta reglugerð um rekstur heilsuverndarstöðvar í hvaða sveitarfélagi sem er, ef skilyrði eru þar fyrir hendi, að slík starfsemi geti náð tilætluðum árangri. Ég held því, að ekki sé ástæða til að lögbinda heilsuverndarstöðvar í hverju læknishéraði á þessu stigi málsins, frekar heldur en gert er ráð fyrir í 5. gr. frv., en óski hv. þm. Barð. hins vegar eftir þessu, get ég grennslazt eftir því hjá nm., hvort þeir vilji koma með brtt. þetta varðandi.