26.01.1945
Sameinað þing: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í D-deild Alþingistíðinda. (5379)

222. mál, virkjun Andakílsár

Frsm. (Pétur Ottesen):

Mér virðist, að á málflutningi hv. þm. A.-Húnv. og að vissu leyti líka hjá hv. þm. V.-Húnv. kenni nokkurs tvíveðrungs, því að jafnframt því, sem þeir láta í ljós brennandi áhuga sinn fyrir því að stuðla að auknum rafvirkjunum í landinu og fara um það mörgum fögrum orðum, þá eru þeir, sérstaklega hv. þm. A.-Húnv., að reka hníflana í þær till., sem fluttar eru hér á hæstv. Alþ. og ganga í þá átt að greiða fyrir þessu máli. Það er ákaflega áberandi í málflutningi hv. þm. A.-Húnv., að hann amast yfirleitt við öllum þeim mörgu till., sem bornar hafa verið fram á þessu þingi og ganga í þá átt að greiða fyrir framgangi þessa máls. Að vísu segist hann gera það á þeim grundvelli, að þessi mál muni öll verða til tafar og erfiðleika, þegar sú löggjöf, sem hann hefur verið að vinna að í 3 ár og flutt hefur verið inn á þingið, verður samþ. og þegar á að fara að starfrækja þessi mál eftir henni. Ég held, að þetta sé byggt á því, að hv. þm. hafi alls ekki gert sér nægilega grein fyrir því, hvernig þessi mál liggja fyrir hér á Alþ., og ætti hann þó, sem hefur unnið svo lengi að þessum málum, að hafa sett sig nokkuð inn í afstöðu þessara mála hér, eins og þau liggja fyrir, með tilliti til þeirrar löggjafar, sem hann vill nú koma á um þetta atriði. Ég sé ekki af þeim málum, sem hér liggja fyrir á Alþ., að þau hafi fengið daufar undirtektir. Þau eru sum búin að fá endanlega afgreiðslu og önnur hafa fengið afgreiðslu í n., og þeim, sem síðast hafa komið fram, er nú verið að vísa til n. hér, og sé ég ekki, að eitt einasta af þessum málum þurfi að nokkru leyti að rekast á löggjöf þá, sem hv. þm. vill hér koma á um það mál, eða framkvæmd þeirra á nokkurn hátt að verða til tafar.

Því hefur verið áður lýst hér af okkur báðum flm. þessarar till., sem hér er til umr., að þó að sú byrjun yrði hafin á þessu ári, sem stefnt er að, þá þurfi það engan veginn að koma neitt í bága við það, sem ofan á yrði í þessum efnum á næsta þingi og fullkomlega er gert ráð fyrir, að verði ofan á í þessum efnum. Hvernig er þetta svo um aðrar till., sem liggja hér fyrir? Ég man ekki að nefna þær allar, en get drepið á nokkrar. Það er búið að afgreiða hér till. viðvíkjandi rafveitu Keflavíkur, og er það ekki nema partur af því máli, sem afgr. hefur verið, og ekki kemur það mál í bága við þá löggjöf, sem hér um ræðir. Hér er næst á dagskrá till. um áframhald Reykjanesveitunnar, og ekki kemur hún neitt í bága við þessa löggjöf, sem hér um ræðir. Hér liggur fyrir þáltill. um ábyrgðarheimild fyrir Vestmannaeyjar, og ekki kemur hún í bága við þessa löggjöf, þar er um að ræða að koma upp öflugri mótorstöð fyrir Vestmannaeyjakaupstað. Samkvæmt áliti, sem legið hefur fyrir hjá fjvn. frá forstöðumanni Rafmagnseftirlits ríkisins, segir hann, að þó að rafmagnið verði leitt til Vestmannaeyja, sem framleitt væri með fossafli, þá væri þessi stöð nauðsynleg varastöð fyrir Vestmannaeyjar, svo að ekki kemur hún þess vegna neitt í bága við þessa löggjöf. Hér er á ferðinni ábyrgðarheimild fyrir Ólafsvík til þess að endurbæta rafkerfi Ólafsvíkur, endurbótin er miðuð við það, að innanbæjarkerfi Ólafsvíkur geti verið til taks þegar að því kemur, að þangað verði leitt rafmagn frá einhverju fallvatni landsins, og ekki rekst þessi þáltill. neitt á þessa löggjöf, sem hv. þm. talaði um. Hér liggur fyrir till. um ábyrgð fyrir Ísafjarðarkaupstað og Eyrarhrepp, þ. e. endurbætur á því kerfi, sem þar er komið upp, og ekki kemur það neitt í bága við ákvæði þessarar löggjafar, þó að nokkuð sé stækkað það kerfi, sem búið er að koma upp á Ísafirði. Það liggur hér fyrir till. um ábyrgð fyrir Neskaupstað, það er um endurbætur á bæjarkerfinu þar, og er miðað við það, að þangað verði síðar meir leitt rafmagn frá einhverju fallvatni austanlands. Ekki kemur það í bága við þessa löggjöf, sem hv. þm. var að tala um. Ég nenni ekki að vera að rekja upp allar þessar till., sem hér liggja fyrir um þetta efni, en vildi bara benda á þessi dæmi til þess að sýna, að hv. þm. er að berjast við skuggann sinn, þegar hann er að amast við og sporna á móti því, að þetta mál fái afgreiðslu hér á hæstv. Alþ. Það er ekkert undarlegt í sjálfu sér, þó að svona málflutningur verði ekki ákaflega áhrifaríkur, þegar ummælin stangast svona greinilega á eins og þau gera í þessu máli.

Raforkumálanefnd hefur nú setið með þessi mál nokkuð mikið á þriðja ár. Þetta er náttúrlega stórmál, og er ekkert við því að segja út af fyrir sig, þó að mér sýnist satt að segja nokkurt bráðræði í því hjá hv. meiri hl. n. að unna ekki ríkisstj. nokkurra mánaða tíma til þess að setja sig inn í þetta mál, sem n. hefur þurft svona langan tíma til þess að undirbúa, og verð ég að segja það, að það sýnist ekki nærgætni gagnvart ríkisstj., þó að ég ætti ekki að vera að halda uppi svörum fyrir hana, að gera kröfu til hennar nú um það, að hún athugi þetta mál og leggi fyrir Alþ., áður en fram er komið nál. frá minni hl. n., sem að einhverju leyti er annarrar skoðunar en meiri hl. Mér finnst því satt að segja það út af fyrir sig ekki tiltökumál, þó að þeir menn, sem eru í andstöðu við ríkisstj., a. m. k. ekki stuðningsmenn hennar, hafi ekki þá tilfinningu fyrir henni að setja þetta mál ekki fram, en þar er allt öðru máli að gegna um hv. þm. A.-Húnv., sem er mjög ákveðinn stuðningsmaður hæstv. stj., það er nokkuð undarlegt, að hann skuli taka þátt í því að taka málið þannig út úr höndum hæstv. stj. og flytja það inn á Alþ., og því fremur sem hv. þm. A.-Húnv. hefur gengið fram fyrir skjöldu í málflutningi stj. vegna hér á hæstv. Alþ. Mér virðist því gæta nokkurs tvíveðrungs í málflutningi hv. þm. í þessu máli, og tvíveðrungs gætir líka að því er snertir afstöðu hans til hæstv. ríkisstj. hvað þetta mál snertir. Til þess svo að undirstrika afstöðu sína vegna afgreiðslu rafmagnsmálanna hér á hæstv. Alþ., fór hv. þm. A.-Húnv. að tala um það, að eiginlega væri það ógerlegt frá fjárhagslegu sjónarmiði að hreyfa slíkum málum nú. Þetta er náttúrlega rétt, það er hátt verð á öllu, sem á þarf að halda til þess að framkvæma eitt og annað, en það er einmitt það, sem bendir mjög áþreifanlega á framfarahug og framtakssemi íslenzku þjóðarinnar, að undir eins og raknaði úr um fjárhag manna til sjávar og sveita, þá horfa þeir ekkert í það, þó að nokkuð sé dýrt að framkvæma hlutina, heldur nota þeir þá bættu fjárhagsaðstöðu, sem þeim hefur fallið í skaut, til þess að hefja framkvæmdir, og það er ekkert undarlegt, þó að slíkur framfarahugur komi fram í slíku nauðsynjamáli sem rafmagnsmálin eru, og ætti það sízt að vekja furðu hv. þm. A.-Húnv., því að þetta er ekki nema eðlilegur hlutur í sjálfu sér. En svo fannst mér ekki fara vel saman hjá honum að vera að hreyfa andmælum gegn því, sem væri plan í þessum framkvæmdum, þar sem hann viðhafði þau orð um þá aðila í ræðu sinni í fyrradag, sem hafa sýnt mestan áhuga í þessu máli, sem er félagsskapur Borgfirðinga, er stendur að Andakílsárvirkjuninni, — að þeir væru gæfunnar börn. Hvers vegna voru þeir gæfunnar börn? Af því að þeir höfðu ráðizt í framkvæmdir og fest kaup á efni til rafvirkjunarinnar. Hins vegar er hv. þm. A.-Húnv. ekki neinn þátttakandi í þeirri gæfu, því að þegar við hv. þm. Mýr. fluttum frv. um sérleyfi, sem þarf til slíkrar virkjunar, 1943, átti hann hlut að því að beita til þess aðstöðu sinni í mþn. í raforkurmálum að koma í veg fyrir, að við fengjum þetta sérleyfi. Það var fyrir frumkvæði okkar hv. þm. Mýr., að flutt var þáltill., sem heimilaði ríkisstj. hvort eð væri að veita ábyrgð fyrir láni til virkjunarinnar eða hefja virkjun og efnið væri keypt fyrir hönd ríkissjóðs. Við áttum frumkvæði að því, og það getur verið, að hv. þm. hafi rétt upp höndina með þessari till., en þar átti hann ekkert frumkvæði og hann beitti afstöðu sinni þannig. En hvað gerði hann til þess að fá ríkisstj. til þess að framkvæma þetta á þeim grundvelli, að ríkið gerði það? Ég veit ekki til, að hann hafi gert neitt til þess. Það var líka fyrir frumkvæði okkar hv. þm. Mýr., að ríkisábyrgð fékkst og nokkuð var gert til þess að kaupa efni til þessarar virkjunar, þar lagði hv. þm. A.-Húnv. engan hlut að. Hann hefur kannske ekki gert neitt til að spilla fyrir því, en hann hefur heldur ekki gert nokkurn hlut til þess að hrinda þessu máli áfram. Ég held þess vegna, að það, að þetta framtak ætlar að verða til góðs fyrir Borgfirðinga og aðra þá, sem koma til með að njóta góðs af þessum framkvæmdum, sé ekki fyrir atbeina hv. þm. A.-Húnv., hann hefur þar ekkert lagt til þessa máls, sem orðið hafi til þess, að það er komið það áleiðis sem það nú er.

Ég get þá vikið nokkrum orðum að hv. þm. V.-Húnv., — þar sem hv. þm. A.-Húnv. þurfti að víkja sér frá, — nágranna hans og mjög skoðanaskyldum að því er snertir afstöðuna til þessa máls, ef hann er ekki í svo nauðsynlegum samræðum, að hann mætti vera að því að hlusta á mig. Hv. þm. V.-Húnv. varpaði hér fram í sambandi við þetta mál, að Andakílsárvirkjunin væri eingöngu gerð fyrir kaupstaði og kauptún, en gengið væri fram hjá sveitum landsins. Hann varpaði og fram þeirri spurningu, hvort líklegt væri, að Reykjavík eða Akureyri mundu dreifa rafmagninu út um landið. Og á þessu átti svo að byggja það, að Borgarnes mundi ekki veita rafmagni í nærliggjandi sveitir. En ég vil þá upplýsa það, sem honum virðist hafa dulizt, að þrír aðilar, Borgarfjarðar- og Mýrasýsla og Akraneskaupstaður, standa að þessu verki, að 1/3 hver. Þeir lögðu ekki í stærri framkvæmdir til að byrja með. Fyrst verður rafmagnið lagt til Akraness, Borgarness og Hvanneyrar og á nálæga sveitabæi. En í milli þessara staða eru þéttbýlar sveitir, svo að þegar í stað fer rafmagnið inn í fjölmörg sveitaheimili, en síðar er áætlunin að leiða það um allan Borgarfjörð. Hér er alveg byrjað á réttan hátt, rafmagnið er fyrst lagt til þeirra staða, sem líklegastir eru til að bera kostnaðinn og veita fjárhagslega undirstöðu. Það er fullvíst, að það verður að nota þéttbýlið og aðstöðuna í kaupstöðunum til að bera uppi rafveitu í sveitirnar. Þetta ættu hv. þm. að gera sér ljóst. Þannig virðist mér liggja beint við, að hinar stærstu virkjanir hér á landi, svo sem Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin, verði liðir í dreifingu rafmagnsins um sveitirnar, ekki síður en þessi virkjun, sem hér um ræðir. Fyrir þessu virðist mér þó ekki gert ráð af hálfu n., enda munu handaverk hennar fremur ófullkomin.

Ég get hér frómt úr flokki talað. Ég þykist hafa átt góðan hlut að lausn rafmagnsmála hér á Alþ., þótt ég hafi ekki átt sæti í þeirri raforkun., sem nú starfar.

Ég hygg, að það muni álit flestra, að ekki sé æskilegt, að allir landsmenn flytji á mölina og sveitirnar leggist í auðn, og mér finnst það vera þegnskaparatriði, að allir landsmenn sameinist í því að gera öllum fært að búa við rafmagn.

Það munu nú ekki vera fleiri atriði, sem ég þarf að fara inn á. Raunar væri vert að fara nokkrum orðum um málflutning hv. þm. A.-Húnv. Og það er fullvíst, að ef Borgfirðingar hefðu varpað áhyggjum sínum upp á þm. A.-Húnv., þá hefði ekkert verið gert og þessi mál ekkert verið komin áleiðis. (JPálm: Alveg rétt). Já, alveg rétt, segir hann. En ég get fullvissað þennan hv. þm. um, að hann fær ekki nokkurn Borgfirðing til að trúa því, að hann hafi unnið þessu máli gagn. Og ég verð að segja, að það hefur illa til tekizt að velja slíka dragbíta í raforkun. sem þessa menn.

Það var vikið að því hér áðan, að þessi þál. fellur vel inn í það plan, sem fyrirhugað er, og er það óneitanlega mikill styrkur fyrir þetta mál.

Ég gaf yfirlit um það í upphafi ræðu minnar, hversu rafmagnsmálin horfa nú. En ekkert af þeim lögum, sem legið hafa fyrir Alþ. hér að lútandi, hafa að öllu fallið betur undir hið væntanlega skipulag. Það er þess vegna alveg vonlaust að hefja andróður á þeim grundvelli. Og ef þessir hv. þm. ætla að standa á móti þessu máli, þá taka þeir um leið fram fyrir hendur þeirrar stjórnar, sem þeir þó styðja. Vitna ég í því sambandi til ummæla hæstv. ráðh. um þetta mál.

Það er fullkomlega rangt hjá hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. V.-Húnv., að á þessu brotni sú löggjöf, sem fyrirhuguð er. Hún mun ekki ná fram að ganga á þessu þingi, en eru hins vegar ekki unnin nein spjöll, þótt þessi þáltill.samþ. Við eigum lengi að búa að þeirri löggjöf, og er þess vegna full þörf á, að hún sé vandlega athuguð og undirbúin. En sá ráðherra, sem með þessi mál fer, hefur verkfræðingsþekkingu og hefur því góða aðstöðu, en honum þarf eðlilega að vinnast tími til að vinna að þessu. Hv. þm. A.-Húnv. vill ekki gefa honum tækifæri til þessa, líklega telur hann sitt verk svo fullkomið.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta. Það er algerlega út í loftið sagt, að nokkuð brotni á samþ. þessarar þáltill. Alþ. hefur alveg frjálsar hendur til að gera sínar ákvarðanir síðar. Það, sem það þarf nú að gera, er einungis að leyfa, að byrjað verði á stíflugerð, vélarhúsi og íbúðarhúsi. Aðrar framkvæmdir eru ekki fyrirhugaðar á næsta ári. Ég skal taka það fram viðvíkjandi till. þm. Barð., að ég tel rökfærslu hans gilda og fellst fyrir mitt leyti á till. og vænti, að aðrir nm. í fjvn. geri það einnig.