05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (5425)

274. mál, bifreiðar handa læknishéruðum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Eins og mönnum er kunnugt, hafa tekizt samningar milli stjórnarvalda erlends hers og sölunefndar setuliðseigna f. h. ríkissjóðs um sameiginleg kaup á allmiklu af bifreiðum og ýmsu fleira, sem afhent verður smám saman, eftir því sem setuliðið flytur úr landinu. Núna fyrir helgina voru afhentir fyrstu bílarnir og koma til úthlutunar í þessari viku. Landlæknir, sem sýnt hefur, að hann hefur opin augu fyrir því, hve nauðsynlegt læknum í sveitahéruðum er að hafa bíla til að létta sér ferðalög og komast sem víðast, hefur ritað heilbrigðis- og félmn. um þetta mál. Hingað til hefur þetta ekki orðið með öðru móti en því, að læknar eignuðust sjálfir bíla til ferða sinna, og hafa sum héruð gefið læknunum bíla í þessu skyni. En með því fyrirkomulagi er héruðunum ekki tryggt, að bíllinn haldist í læknisnotkun þar til langframa. Læknar flytjast milli héraða og líka geta þeir, og hafa gert, selt þá bíla, er þeir hafa fengið. Landlæknir hefur því hugsað sér þá lausn, að læknishéruðunum sé gefinn kostur á að eignast bíla af þeim gerðum, sem þau telja sér henta og nú hafa verið keyptar af setuliðinu. Óskar landlæknir í bréfinu, að Alþingi hlutist til um það. Að því miðar þessi þáltill., sem öll n. flytur.

Landlæknir gerði ráð fyrir, að héruðin ættu að fá bílana með kostnaðarverði og helzt án þess að greiða af þeim toll. En þegar málið var rætt við ráðh., kom það fram annars vegar, að ekki væri heimild til að gefa eftir toll, — þótt ég viti til, að það hafi verið gert bæði eftir tilmælum fjvn. og með sjálfdæmi ríkisstj., — og hins vegar, að örðugt mundi að ákveða kostnaðarverð, þar sem tiltekin er ein og óskipt fjárhæð sem söluverð allra setuliðseigna, er afhentar verða nú. Þó hefur matsverð verið lagt á hvern hlut, og virðist mér rétt, að héruðin fái bílana með því verði, sem þeir hver einn hafa verið áætlaðir, að viðbættum fáeinum % fyrir hlutdeild í sölukostnaði. En um eftirgjöf á tolli, sem var a. m. k. öðrum ráðh., sem við var talað, mjög á móti skapi, viljum við ekki leggja það til, sem landlæknir vildi. Okkur virðist sanngjarnt, að greiddur verði 10% tollur af þessum bifreiðum eins og af flutningabílum, en ekki 30% tollurinn, sem greiddur er af fólksflutningabílum, sem eru annaðhvort lúxusbifreiðar einstaklinga eða atvinnutæki til mannflutninga gegn fargjaldi, og er hvorugu þessu jafnandi við sjúkraflutningsbíla eða fararskjóta handa læknum.

Það var hugmynd okkar, að héruðin fengju að kjósa, hvort þau vildu heldur sjúkrabifreið eða „jeep“-bíl. Þar, sem góðir eru vegir og læknir á bíl fyrir, mundu héruðin víða kjósa sjúkrabílana, og af þeim mun fást nægilega margt til þess, að þau geti fengið þá, sem þess óska. En í mörgum héruðum eru vegir þannig, að ekki eru líkur til, að hægt sé að hafa þar mikið gagn af venjulegum bílum. Þá er gert ráð fyrir, að hægt sé að láta þau héruð fá „jeep“-bíl. Í tveim héruðum hefur ríkisstj. komið því til vegar, að „jeep“-bílar hafa verið reyndir til læknisflutninga um óvegi og vegleysur, og reynslan hefur orðið eftir beztu vonum. — Þessi lausn bílamálsins gæti ef til vill að einhverju leyti stutt að því, að læknar fengjust í héruðin, en það hefur gengið illa, enda mörg ein læknislaus.

Ég vona, að till. verði samþ. og þau héruð, sem þegar hafa sótt um bíla, geti fengið úrlausn mála sinna sem fyrst.