05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (5427)

274. mál, bifreiðar handa læknishéruðum

Sigurður E. Hlíðar:

Eins og hv. frsm. hefur skýrt frá, var enginn ágreiningur um flutning þessa máls í heilbrigðis- og félmn. En ég skrifaði undir með þeim fyrirvara, að ég flytti brtt., sem n. var ekki orðin á einu máli um. Mér fannst rétt, að dýralæknar fengju að vera með. Að vísu eru dýralæknahéruðin heilir landsfjórðungar og ekki þess að vænta, að samtök verði um bílakaup í svo takmarkalitlu héraði, eins og er. Þá getur framkvæmdin aðeins orðið sú, að dýralæknar megi, ef þeir vilja í það leggja, kaupa þessa bíla með sömu kjörum og héruðin. Sama rétt vildi ég ætla Slysavarnafélagi Íslands. Eftir að n. hélt fund um málið og afgreiddi það, sneri félagið sér til mín, sem formanns í n., og fór fram á þetta. Félagsstofnun þessi hefur þróazt ört undanfarið og getið sér almenningshrós. Allir líta hana hlýju auga. En það er gefin sök, að Slysavarnafélag Íslands þarf einmitt að hafa bíla til flutninga á slysstað, hvar sem hann er, og þarf að hafa stóran bíl til þess að geta flutt menn og hjálpargögn á staðinn og ekki sízt til þess að flytja sjúklinga eða slasaða menn frá strandstað á sjúkrahús eða annan öruggan stað. Þess vegna fer Slysavarnafélag Íslands fram á, að það fái að njóta sömu kjara um kaup á tveimur bílum: einum stærri, sem mætti nota sem sjúkrabíl, og svo aftur minni, — „jeppa“, sem félagið hugsar sér til annarrar starfsemi. Eins og hv. þm. vita, þá hefur Slysavarnafélagið sent fulltrúa sinn út á land til þess að kenna hjálp í viðlögum, sem hefur gefizt mjög vel. Hefur landlæknir nú fyrir skömmu skorað á fél. að senda fulltrúa sinn langan veg, með vorinu, einmitt til þess að halda námskeið í hjálp í viðlögum. Álítur félagið mjög heppilegt fyrir sig og nauðsynlegt að fá „jeppa“ til slíkra ferðalaga.

Af þessum sökum hef ég tekið að mér að flytja hér brtt. við þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 950, sem hljóðar þannig, með leyfi hv. forseta, að á eftir fyrri málsgr. tillgr. komi: Slysavarnafélag Íslands nýtur sömu kjara með 2 bíla, sem það þarf að kaupa vegna starfsemi sinnar. Dýralæknum skal einnig gefa kost á „jeep“-bílum með sömu kjörum.

Ég geri ekkí ráð fyrir, að ég þurfi að skýra þetta mál öllu meir. Býst ég við, að hv. þm. skilji, hver meiningin er og að um nauðsynlega viðbót er að ræða, a. m. k. hvað snertir Slysavarnafélag Íslands. Það getur sitt sýnzt hverjum um vesalings dýralæknana, þótt ég fyrir mitt leyti álíti þörf þeirra eins mikla og læknanna a. m. k.