05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í D-deild Alþingistíðinda. (5430)

274. mál, bifreiðar handa læknishéruðum

Eysteinn Jónsson:

Það var aðeins út af þessari brtt. frá hv. þm. Ak., að ég tek til máls.

Ég tel, að lengi hafi verið búið illa að dýralæknum í landinu, og tel, að mikil nauðsyn væri, ef hægt væri að greiða fyrir starfsemi þeirra, með því að þeir fengju hentugar bifreiðar til umráða. Nú er þess að gæta, að í till. er ráðgert, að læknishéruðin eigi bifreiðarnar, sem héraðslæknunum er ætlað að nota, en ekki læknarnir sjálfir, og mér skilst það hafi að einhverju leyti reynzt þrándur í götu þessarar hugmyndar. Mönnum finnst erfitt að koma þessu fyrir á heppilegan hátt með þá, þannig að tryggt væri að þessar bifreiðar yrðu notaðar í þágu dýralæknanna, en lentu ekki í venjulegum viðskiptum, yrðu t. d. ekki seldar. Þess vegna vildi ég beina því til þeirra, sem hlut eiga að máli, flm. brtt. og annarra í n., sem um málið fjalla, hvort ekki er hægt að taka dýralæknana inn í þetta á þann hátt, að búnaðarsamböndin á hverju dýralæknissvæði ættu bíl, sem væri til afnota fyrir dýralækninn á sama hátt og um héraðslæknana, þar sem ráðgert er, að læknishéruðin eigi bifreiðar, en læknarnir noti þær. Ef menn vildu athuga þetta, mætti gjarnan fresta umr. og gefa þessu gaum, því að engin hætta er á því, að þetta mál dagi uppi, og ætti ekki að taka langan tíma að athuga það, hvernig mætti koma þessu fyrir.