20.10.1944
Sameinað þing: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (5453)

169. mál, kaup á efni í Reykjanesrafveituna

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Ég tek undir það, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði. Mér finnst ekki óeðlilegt, að þegar till. kemur fram um að heimila ríkisstj. að kaupa efni til rafveitu um Suðurnes, séu líka teknar ákvarðanir um aðra staði, sem rafveiturannsóknir hafa náð til, og lýsi ég yfir því, eins og hv. þm., að ég er á móti því, að afgreitt sé að leggja línu um Suðurnes, án þess að aðrir staðir komi til greina. Með samþ. Alþ. um lögn til Keflavíkur og þeim framkvæmdum, sem hafnar hafa verið í því efni, virðist mér stigið spor, sem gefur fordæmi og veitir öðrum landshlutum og byggðarlögum rétt til að krefjast sömu meðferðar á sínum raforkuveitum og Keflavík hefur orðið aðnjótandi og nú er ætlazt til, að Suðurnes hljóti. Með það fyrir augum tel ég eðlilegt, að hafður sé sá háttur á að tiltaka staðina, úr því að byrjað var á því. Ég skyldi hafa fallizt á það, hefði frá upphafi verið heimilað að verja framlögum til sérstakra staða samkvæmt áliti sérfræðinga. En þegar stigið er það spor á Alþ. að áætla sérstökum sveitum eða byggðarlögum þessi fríðindi, er óhjákvæmilegt, að ónnur byggðarlög sigli í sama farið, og með tilliti þess leyfi ég mér að bera fram brtt. varðandi Vestmannaeyjar, því að þær eru nátengdar línunni til Stokkseyrar og austursveitanna, og ég vil halda því fram, að þær eigi sama rétt á atbeina Alþ. og stj. og aðrir staðir. Því leyfi ég mér að leggja fram skrifl. brtt. við till. á þskj. 431.