24.01.1944
Neðri deild: 5. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (5471)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Í tíð núverandi ríkisstj. hefur sá háttur verið hafður, þegar sjóslys hafa orðið eða skip farizt, að atvmrn. hefur lagt fyrir sjódóm að rannsaka málin, eftir því sem kostur væri á. Þetta hefur verið gert, til þess að reyna að komast eftir því, hvað valdið hafi slysunum, og til þess að reyna að læra að fyrirbyggja, að sams konar slys komi aftur fyrir.

Samkvæmt þessari venju hefur atvmrh., með bréfi 21. þ. m. til sjódómsins í Reykjavík, gert ráðstafanir til þess, að sjópróf fari fram í tilefni af hvarfi b/v Max Pemberton, til þess að leitast við að finna orsakir að hvarfi skipsins. Þess var einnig óskað, að í sambandi við þetta próf væri aflað skýrslna um það, hvort breyt. hafi verið gerð á fiskirúmum þess, sem ætla mætti, að leitt hefðu til þess, að skipið væri ofhlaðið. Það mun og verða rannsakað, hvort loftvarna- og björgunarútbúnaður skipsins hafi verið þannig, að ætla megi, að hann hafi gefið skipinu óeðlilega yfirvigt, og mun sjódómur láta fara fram próf á síðustu höfn, er skipið kom til, til þess að fá upplýst um hleðslu þess þá og annað, sem máli mætti skipta. Jafnframt og í þessu sambandi hefur ráðuneytið óskað, að sjódómurinn í Reykjavík athugi og leiti skýrslna um, hvernig ástatt er með togara og önnur fiskiskip, sem sigla milli landa, um það, hvaða breyt. hafi verið á þeim gerðar, sem gætu verið óheppilegar eða rýrt gildi þeirra sem sjóskipa.

Ráðuneytið hefur lagt mikla áherzlu á, að athugun þessi fari fram sem allra fyrst, og til þess að svo geti orðið og sem beztur árangur náist, hefur það talið sjálfsagt, að sjódómurinn fái sér til aðstoðar sérfræðinga og kunnáttumenn, svo sem þurfa þykir.

Að lokinni rannsókn verður ráðuneytinu gefin skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar, og verða þá gerðar þær ráðstafanir, sem hún kann að gefa tilefni til.