24.01.1944
Neðri deild: 5. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (5475)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Finnur Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil í sambandi við þetta mál benda á þá nauðsyn, sem á því er, þegar gerðar eru breytingar á fiskiskipunum, að athuga ekki einasta stöðugleika þeirra undir venjulegum kringumstæðum, heldur líka, hvort þau geti rétt sig við, þegar þau eru lögzt á hliðina í sjónum. Mér finnst einnig rétt að benda á það, að eini lærði skipaverkfræðingurinn hér á landi er Bárður G. Tómasson og á heima í Ísafirði. Mér þætti æskilegt, að hæstv. ríkisstjórn tryggði sér aðstoð hans í þessu máli. Mér virðist alls ekki úr vegi. að við notum í þessu efni þá krafta, sem við eigum til í landinu.