05.09.1944
Neðri deild: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

71. mál, Hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Með l. nr. 13 frá 1932 var í fyrsta sinni af löggjafarvaldinu lagður grundvöllur að því að koma á fót sérstöku hjúkrunarnámi. Með þessum l. frá 1932 var stofnaður Ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands, sem átti að reka og hefur verið rekinn í sambandi við Landsspítalann. En nú hefur viljað svo til, að þessi skólastofnun hefur að nokkru leyti — þ.e.a.s. hjúkrunarkvennaskólinn — ekki náð því takmarki, sem stefnt var að, og hér koma til greina þær sérstöku og óvenjulegu ástæður, sem ríkt hafa hér undanfarin rúm 4 ár og hafa leitt það af sér, að orðið hefur mikill hörgull á kvenlegum vinnukrafti í landinu. Fyrir stríð voru líkur til, að það fengjust góðar stúlkur og nógu margar til þess að nema. hjúkrunarfræði, en eftir að eftirspurnin eftir vinnukrafti jókst, mæddi það svo mjög á þessari skólastofnun, að hún hefur um allt þetta skeið verið í hálfgerðum molum.

Þetta hafa heilbrigðisyfirvöldin talið, að mætti ekki svo fram ganga, og því er frv. þetta fram borið. Það, sem er aðalatriði málsins, er að laða góðar og greindar konur til að stunda þessi fræði, eða eins og landlæknir segir, að láta úrvalskonum verða það keppikefli að komast í þessa stétt. En það verður aðeins gert með því að koma á fót stofnun, sem býður svo góð skilyrði, að slíkir kvenkostir gefi kost á sér. Og það verður því aðeins gert með því að skólinn sé heimavistarskóli og að hann sé rekinn sem sérstök stofnun með sérstökum starfskröftum. Þess vegna er það þungamiðjan í þessu máli, að frv. nái fram að ganga og að fjárveitingavaldið sé þess albúið að leggja fram nóg fé til þessa heimavistarskóla. Landlæknir kveður svo djúpt að orði, að ef heimavistarskóli sé ekki stofnaður, verði lögin dauður bókstafur.

Ég tek þetta fram til þess að ljóst sé, að með samþykkt frv. fylgja nokkuð mikil útgjöld, en það dugar ekki að horfa í það, því að það er ekki á neinu sviði eins mikill hörgull á starfskröftum, og ástandið er svo herfilegt, að það væri blettur fyrir landið að opinbera það, hve mikið er lagt á þær hjúkrunarkonur, sem fyrir eru.

Auk þess, sem gert er ráð fyrir sérstöku heimavistarhúsi, er ætlazt til, að kennslan verði tekin fastari tökum en hingað til og að aðalaðstoðarlæknum við Landsspítalann verði gert að skyldu að kenna við hann.

Við frv. eru nokkrar rækilegar aths., sem ég vil biðja hv. þm. að kynna sér vel, því að þar er drepið á öll höfuðnýmæli í frv.

Ég skal geta þess, að frv. hefur verið borið undir yfirlækna Landsspítalans, og þeir hafa ekkert haft við það að athuga, en það vil ég leggja út svo sem þeir séu því samþykkir.

Ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.