14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (5488)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Það er auðvelt fyrir hv. þm. að halda fram, að allt reki á reiðanum fyrir ríkisstjórninni, af því að allir hlutir fást ekki. En ég vil benda á, að við lifum á stríðstímum, og það er stundum þungt fyrir um að útvega nauðsynjavörur, svo ég ekki tali um þær, sem stríðsaðilar sjálfir þurfa mjög mikið að nota til stríðsþarfa. Þess vegna er það hæpið af honum að slá því fram, að hér sé um sleifarlag að ræða, þegar vantar einhverja vöru. Ég vil a.m.k. ekki viðurkenna, að hér hafi verið um nokkurt sleifarlag að ræða, hvorki hvað snertir veiðarfæri né efni.

Það var ekki byrjað á því að fara diplomatisku leiðina. Það er ekki gert, fyrr en í síðustu lög, ef allt annað bregzt.

Hv. þm. spurði, hvers vegna ríkisstjórnin hefði tekið það svona seint í höfuðið að kippa þessu í lag. Þar er því til að svara, að það er ekki nema stuttur tími síðan, veiðarfæraskammturinn var skorinn niður um 1/4, og strax og það átti sér stað, sneri stjórnin sér diplomatisku leiðina. Englendingar höfðu ekki gefið okkur afsvar um, að kvótinn gæti hækkað, en fram á það höfðum við farið. En þegar svo við fáum svar, þá er það ekki bara, að kvótinn geti ekki hækkað, heldur er það niðurskurður. Þegar sendiherrann talar við þá, þá segja þeir, að þeir hafi ekki veiðarfærin til. Þeim er það ljóst, eins og okkur, að ef þeir geta ekki látið okkur fá veiðarfæri og hampvörur, þá getum við ekki látið þá fá fisk. Þetta er einhver hin vandfengnasta vara, af því að löndin, sem framleiða hana, eru í höndum óvinanna. Ég get skilið, að takmörk eru fyrir því, hvernig hægt er að skipta henni. Hins vegar er ekki um það að deila, að það verða farnar þær leiðir, sem unnt er að fara, til að kippa þessu í lag.