14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (5490)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Finnur Jónsson:

Það er ljóst, að stjórnin á í erfiðleikum, sem ófriðurinn leiðir af sér, en meðan ekki upplýsist annað, held ég fast við það, að ganga mun erfiðlega að skýra fyrir viðskiptamönnum okkar þá nauðsyn, sem við höfum fyrir vöruna, eða að ekki hefur verið lögð nægileg áherzla á það. Eftir að heyra ræðu hæstv. ráðh., hallast ég að því síðara. Ég held, að aðalatriðið sé ekki að skýra fyrir þeim, hve nauðsynlegt okkur sé að fá vöruna, heldur hver lífsnauðsyn þeim er að fá okkar vöru. Ég held, að stjórnin hafi farið of seint inn á þá diplomatisku leið. Það bar ekki á neinum veiðarfæraskorti framan af stríðinu, og Bretum virtist vera ljóst, hver lífsnauðsyn þeim var, að við fengjum vöruna. Ég vil benda hæstv. viðskmrh. á, hvort ekki muni vera leið að taka upp snemma í viðskiptasamningunum, að hér verði nægilegar birgðir fyrir síldveiðarnar og varahlutir í síldveiðiskipin. Það er. óviðunandi að geta ekki lagt fullan kraft í framkvæmdirnar vegna vöntunar á vörum, sem til þeirra þarf.

Það má óhætt fullyrða, að menn kaupa ekki meira af veiðarfærum en þeir nauðsynlega þurfa á að halda og liggja ekki með birgðir.

Ég hygg, að það hljóti að vera hægt að koma Bandamönnum í skilning um nauðsyn okkar á því að fá vörur til framleiðslunnar, ef nægileg áherzla er lögð á það, hvað það er mikilsvert fyrir okkur að fá þær og að það er þeirra hagur ekki síður.