21.11.1944
Neðri deild: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

183. mál, nýbyggingarráð

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hef sannarlega ekki á móti því, að atvinnureksturinn geti borið sig. Það eina, sem ég hef á móti, er, að verið sé að samþ. óþarfa brtt. Það stendur í frv. sjálfu, að athuga skuli, hvaða atvinnutæki, samgöngutæki, byggingar og annað þurfi til sjávar og sveita, til þess að allir Íslendingar geti haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, og ég sé ekki, að þurfi að endurtaka það með mörgum setningum.

Ég vil halda fram, að það, sem ber hér á milli, séu minni háttar atriði. Hv. þm. spyr, hvort það séu minni háttar atriði, hvernig fyrirkomulag sé á atvinnurekstrinum. Nei, en athugun á þessu kemur til með að falla undir nýbyggingarráð, því að um leið og starf n. þeirrar, sem endurskoða á skipulag stóratvinnurekstrar í landinu, er falið nýbyggingarráði, þá fellur allt hennar verkefni undir ráðið. Það eru mannaskipti, en viðfangsefnin eru þau sömu eftir sem áður. Ég get því ekki gert mikið úr þessu atriði.

Hv. frsm. minni hl. segir, að við val á þessum tækjum þurfi að gera sér grein fyrir, hvort viðkomandi atvinnugrein sé arðvænleg eða ekki. Eins og ég hef þegar bent á, þá fær ráðið þetta verkefni, alveg eins þótt hans brtt. sé ekki samþ., því að í frv. stendur, að vinna skuli að því, að allir Íslendingar geti haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur.

Hann segir, að ég hafi rangfært og misskilið það, sem hann sagði, að innlend framleiðsla megi ekki kosta meira en sú erlenda. Ég held, að mér sé það vorkunn, vegna þess að í hans brtt. stendur, að sérstaklega skuli athuga, hvort hægt sé að fá ný framleiðslutæki gerð innan lands fyrir eigi hærra verð en greiða þurfi fyrir þau, er keypt séu frá öðrum löndum. Ég hef vitanlega ekkert á móti því, að þetta sé athugað, og geng út frá því sem sjálfsögðu, þó að þetta orðalag verði ekki samþ., að nýbyggingarráð beri saman verðlag á því, sem hægt er að fá innan lands, og því, sem keypt er frá útlöndum. En við yfirlit á þessari brtt., sem ég sá ekki fyrr en í byrjun þessa fundar, þá gat ég ekki annað séð en að það væri meiningin með þessari brtt., að innlend tæki skyldi því aðeins kaupa, að þau væru ekki dýrari en útlend, og því datt mér í hug sá samanburður, sem ég gerði. En ef það er ekki tilgangurinn; heldur aðeins að menn geri sér ljóst, hver verðmunurinn kynni að vera á þeim erlendu og innlendu tækjum, þá getum við verið sammála um þetta atriði. En það verður eins athugað, þó að brtt. hans verði ekki samþ., því að í 2. gr. stendur, að nýbyggingarráð hlutist til um, að slík tæki verði keypt utan lands eða gerð innan lands, enda þótt hv. þm. segi, að í frv. sé eingöngu gert ráð fyrir, að þau verði keypt frá útlöndum. Þar hefur honum því skjátlazt, og getum við þá verið kvittir um það atriði.

Hv. þm. spyr, hvort ég ætlist til, að stofnuð verði ný n. til að athuga möguleika til að koma á ákvæðisvinnu. Ég ætla mér ekki að taka að mér að undirbúa það mál fyrir hann, því að þetta er atriði, sem er. frjálst öllum landslýð, en ef hann vill, að ríkisvaldið hlutist til um það, verður hann að bera fram um það frv.

Ég ætla ekki lengra út í þá sálma, en vil aðeins undirstrika enn frekar það, sem ég átti við áðan, að þó að talað sé um að kaup hér sé dýrt, þá held ég, þegar gætt er að, að tekjur verkamanna í lífsgæðum séu ekki meiri hérna en í öðrum löndum, og þegar talað er um, að kaupið sé hærra eða lægra, þá misskilja menn oft svo, að eingöngu sé um peninga að ræða. Ég efast ekki um, að verkamönnum og öðrum, sem taka laun fyrir sitt starf, stæði á sama og væru aðeins þakklátir, ef þessi lífsgæði, sem þeir þurfa að kaupa, lækkuðu í verði um helming og vísitalan að sama skapi. Ekki mundu þeir amast við því, og það, sem er á stefnuskrá núverandi stjórnar viðvíkjandi kaupinu, er þetta, að reyna að halda í núverandi lífsskilyrði almennings eins lengi og hægt er, og það gerir ekkert til, þó að þetta breytist að krónutali. En það má helzt ekki breytast með þau lífsgæði eða þær þarfir, sem nauðsynlegt er að fá fyrir þetta kaup. Sá stóreignamaður, sem á að taka þátt í að endurskapa atvinnuvegi landsmanna, hefur engan rétt til að segja: Þið skuluð fara með kaupið niður um helming áður en ég hreyfi mig, hvað sem dýrtíðinni liður. Og ef það verður úr, að menn hagi sér þannig með sína fjármuni, þá er það athugunarefni fyrir ríkisvaldið og fyrir þá hv. þm., sem fyrir 2 árum héldu því fram, að ríkið ætti alla þessa peninga, en ekki einstaklingarnir.