18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (5500)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að bera fram þrjár fyrirspurnir til ríkisstjórnarinnar. Sú fyrsta er til atvmrh., þá til dómsmrh. og sú siðasta til forsrh.

Ég vil þá fyrst spyrja hæstv. atvmrh., hvaða breytingar hafi orðið um skipun sáttasemjara í vinnudeilum, frá því sem áður var, eða þá aðstoð, sem hann fær. Árið 1942 störfuðu með sáttasemjara þrír sáttamenn eða fjórir, tilnefndir af þingflokkunum eða miðstjórnum þeirra, og þá var þar maður frá Framsfl. eftir sérstakri ósk frá Ólafi Thors, þáverandi forsrh.

Nú sé ég í blöðum, að búið er að tilnefna menn frá þrem flokkum í sáttanefnd, og er Framsfl. þar undanskilinn. Vildi ég leyfa mér að óska eftir skýringu á þessu.

Til dómsmrh. vil ég beina þeirri fyrirspurn, hvernig hann og lögreglustjóri ætla að svara því tilboði, sem kom frá félagsskap hér í bænum, að setja hér upp sérstakan her, til þess að aðstoða lögregluna við að halda uppi vissri stjórn hér í bænum.

Eftir því, sem kom fram í blöðunum, þá skildist mér, að lögreglustjóra og ríkisstjórn hafi verið boðin aðstoð, ég man ekki frá hvað mörgum hundruðum manna, sem ætla að aðstoða lögregluna í væntanlegri kaupdeilu hér í bænum. Þessi aðstoð á að koma frá Alþýðusambandinu, að því er manni skilst í tvennu lagi, annars vegar að það verður hindrað, að nokkur vinna gerist við höfnina, og í öðru lagi að koma fram eins og „Gestapo“ í Þýzkalandi, til þess að hræða þá verkamenn, sem vildu vinna. Þetta tvennt er algerlega nýstárlegt í okkar sögu hér á Íslandi, svo það er naumast hægt fyrir dómsmrh., sem er yfirmaður réttarmála, annað en gera grein fyrir því, hvernig hann og lögreglustj. ætla að svara þessu og hvernig hann ætlar að koma fram í þessu máli, ef stofnaður verður sérstakur her af öðrum aðila í vinnudeilum hér í þessum bæ.

Til forsrh. vil ég beina þeirri spurningu, hvernig hann líti á það deilumál, sem nú vofir yfir viðvíkjandi því, hvað séu eðlileg takmörk í vinnudeilu eins og þeirri, er hér um ræðir, hvaða takmörk hún eiginlega hafi. Það er hægt að hugsa sér, að forráðamenn Dagsbrúnar hugsi sér, að verkfallið eigi ekki aðeins að ná til framleiðslunnar, heldur einnig til daglegra starfa, sem ekki koma framleiðslunni við. Til þess að gera þetta mál stutt, þá vil ég benda á það, sem hefur töluvert mikið að segja, að Stauntning forsrh. Dana hann leit þannig á og hans flokkur, að verkföll og verkbönn ættu að koma við sjálfa framleiðslustarfsemina, en ekki lífæð þjóðfélagsins. Þess vegna hindraði hann, að lagður væri niður útflutningur á vörum til Englands, til þess að þjóðfélagið gæti staðið. Hér í bænum ætti að afgreiða þetta á svipaðan hátt.

Það er vitanlega fjarstæða að hugsa sér, að deila þessi komi því ekkert við, hvort hér streymir rafmagn, vatn eða gas um þennan bæ, því ef skorið er á rafleiðslu og vatnsæð, þá er komið út fyrir skiptingu þess arðs, sem hér um ræðir. Þess vegna vil ég beina athygli manna að því, ef hér kemur til slíkrar vinnudeilu, sem hér er boðuð, að það er talið, að hér komi innan skamms skip frá Ameríku með vélar til Sogsvirkjunarinnar, og er búið að vinna að því í tvö ár að fá þær og mikil nauðsyn á að fá þær. Ef langvinn vinnustöðvun verður, mun skipið væntanlega fara með þessar vörur aftur til Ameríku, og er þá óvíst, hvenær þær kæmu aftur úr þeirri ferð.

Ég vil vænta, að ráðherrar gefi skýringu á þessu og hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera í þessu máli, og hvort hún verði ekki alvarlega að kveðja Alþ. til styrktar við sig, ef verkfallsaðilar hugsa sér að beita ofbeldi og uppreisn og virða ekki grundvallarreglur og atriði, sem talið er ólíklegt, að þeir geri.