18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (5507)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Út af þessum umr., sem hér hafa orðið, vil ég segja, að ég álít, að þjóðfélaginu stafi engin hætta af þeim kröfum, sem fram eru komnar af hálfu stærsta verkalýðsfélags landsins um, að verkamenn í því hafi sambærileg kjör við það, sem hæstv. Alþ. hefur ákveðið bændum landsins. — Hins vegar getur þjóðfélaginu stafað hætta af því, að atvinnufyrirtæki, sem hæstv. Alþ. hefur stutt með skattfrelsi, stöðvi atvinnuvegi þjóðarinnar, þegar ráðamenn þeirra langar til að brjóta verkalýðshreyfinguna á bak aftur og vilja ekki, þegar menn yfirleitt græða mest í landinu, veita verkalýðnum viðunandi kjör. Og þjóðfélagið hefur ráð til þess að verja sig gegn þessum mönnum. Það getur rekið þessi fyrirtæki sjálft. Það þarf því ekki að leita langt til þess, að þjóðfélagið geti komið í veg fyrir stöðvun atvinnuveganna. — En hitt er erfiðara fyrir þjóðfélagið að standast, ef þær áskoranir til vinnandi fólksins í landinu, sem hv. þm. S.-Þ. hefur verið að gera nú upp á síðkastið, kynnu að hafa áhrif á bændur landsins. Sá hv. þm. hefur verið að reyna að æsa bændur til að gera mjólkurverkfall. þ.e.a.s. hætta að flytja mjólk hingað til Reykjavíkur. Þjóðfélaginu mundi stafa hætta af því, ef svo ágæt stétt yrði fyrir aðgerðir einstakra æsingaseggja leidd út á villigötur. Og gagnvart þess háttar aðgerðum er eðlilegt, að þjóðfélagið reyni að gera einhverjar alvarlegar ráðstafanir, m.a. með því að tryggja vel hag þessara bænda, svo að þeir hafi ekki ástæðu til að fara eftir því, sem einstakir æsingaseggir vilja leiða þá til. — Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ríkisstjórn, hvað hún ætli að gera út af hættu vegna mjólkurverkfalls. Ég veit, að ef hætta væri á slíku verkfalli, mundi hæstv. ríkisstjórn grípa til viðeigandi ráða til þess að afstýra vandræðum. — Ég minntist aðeins á þetta af því, að mér virtist hv. þm. S.-Þ. tala mikið um það, að einhverjir menn í landinu ætli að gera uppreisn.