18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (5511)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. — Aðeins nokkur orð um þetta Dagsbrúnarlið. Ég get alveg upplýst það, að enginn af þessum mönnum hefur þjálfað sig neitt, nema við þá vinnu, sem hann er að vinna, og hefur aldrei tekið neina aukatíma til undirbúnings eftirliti í verkfalli. Ég hef nú ekki verið svo forsjáll að koma á þessari þjálfun á mönnunum. En menn, sem starfa í lögregluliðinu, hafa verið sendir út til þess að þjálfa sig, bæði í Þýzkalandi og viðar. Þetta er alveg nýtt, sem hv. þm. S.-Þ. kom hér með, og athyglisvert, þegar maður fær svona góðar leiðbeiningar. Verkamenn eru stundum nokkuð sljóir og seinir að hugsa sér eitthvað nýtt, en þegar manni er bent á kannske góð ráð, þá er athugandi fyrir verkamenn, hvort þeir eigi ekki að fara að þessum ráðum hv. þm. S.–Þ.

Hinu er hv. þm. S.-Þ. búinn að gleyma, að þegar ég var smástrákur í Grindavík 1916, þá var verkfall hér í Reykjavík. Þá var maður á Öskjuhlíðinni, Jón H. Þorbergsson, nú bóndi á Laxamýri, sem sat fyrir okkur og sagði, að það væri verkfall í Reykjavík og bað okkur fyrir að ráða okkur ekki í skip. (Sigf S: Og Jónas Jónsson) . Var það að skera á lífæðar þjóðarinnar? Og hvað er það að skera á lífæðar þjóðarinnar sérstaklega? Ég held, að þegar vinna er stöðvuð um lengri tíma, hvaða vinna sem það er. þá sé það kallað að skera á lífæðar þjóðarinnar. Mennirnir, sem lenda í kaupdeilu, hætta að jafnaði að vinna alla þá stund, sem deilan stendur yfir. Ég get hugsað mér, að það yrði nokkuð margt, sem kallað væri lífæð þjóðarinnar í þessum skilningi. Og þegar hafið er verkfall, þá er náttúrlega hægðarleikur að segja, að það sé verið að skera á lífæð þjóðarinnar.