18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (5513)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Það var aðeins að gefnu tilefni í sambandi við skipun sáttasemjara í vinnudeilum, sem ég vildi segja örfá orð.

Ég vil láta það í ljós sem mína skoðun, að ég tel ekki heppilegt, að fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum eigi að koma á sættum í vinnudeilum. Og mér vitanlega hefur það ekki verið haft þannig undanfarið, að það hafi verið fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum, sem hafi átt að leita sátta í þeim deilum, heldur hafa verið menn úr ýmsum flokkum þar að starfi.

Annað tel ég mér líka skylt að láta í ljós nú, sem er, að hæstv. atvmrh. var kunnugt um þessa skoðun mína, kannske um svipað leyti og sáttanefnd var sett á laggirnar að þessu sinni. Þetta tel ég rétt, að komi hér fram. Mér finnst, að ríkisstjórn og sáttasemjari eigi saman að velja menn í sáttatilraunir, en ekki stjórnmálaflokkarnir. Ég teldi það óhepgilegt, ef sú venja væri innleidd, að stjórnmálaflokkarnir tækju að sér deilumál eða fulltrúar þeirra, þegar sáttaumleitanir fara fram.

Að öðru leyti ætla ég ekki að segja neitt um þá deilu, sem nú á sér stað og rætt hefur verið hér um.