18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (5514)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Ég ætla aðeins, út af ræðu hv. 1. landsk. þm. (SG), formanns Dagsbrúnar, að óska eftir því fyrir hönd Jóns á Laxamýri, að hann fái að bera af sér sakir í einhverju af þeim málgögnum, sem hv. þm. ræður yfir. Því að mér þykir sennilegt, að Jón muni lýsa því yfir, að hann hafi aldrei aðstoðað við nokkurt verkfall. Mér er kunnugt um, að hann hefur haft öðrum hnöppum að hneppa og aðra lífsskoðun um þau mál heldur en æsingamenn, sem stofna til verkfalla.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði svo sem hann væri hræddur um, að ég væri að gerast æsingamaður á gamals aldri og ætlaði að hvetja bændur til þess að gera verkfall. (SigfS: 1916). Ég get ekki skilið, að kommúnistaflokkurinn haldi því fram, þar sem verkföll eru hans eina framkvæmd hér á landi og hans eina áhugamál hér að nota verkföll til þess að buga framleiðsluna, að hann þá geti verið hissa á því, að það eigi að gera verkföll af öðrum mönnum en kommúnistum, þó að það sé, því miður, svo með bændur landsins, að þeir eru ekki undir það búnir að gera verkföll, og mun líða nokkuð þangað til þeir kynnu að verða það. En bændur munu ekki telja sér óheimilt, ef þeim býður svo við að horfa, að gera verkfall, úr því að kommúnistar álíta,, að þeir geti framkvæmt verkföll hvenær sem þeir vilja og sett upp sjálfstæðan her.