18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (5517)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Ég ætla aðeins út af því, sem talað hefur verið um afstöðu Framsfl., að mótmæla því, sem hv. síðasti ræðumaður setti fram í spaugi, að milliflokkur hefði sérstaka ástæðu til að spilla milli hinna flokkanna, enda er það reynsla, að Framsfl. hefur unnið í gagnstæða átt. Vil ég þar nefna til, að hann hefur barizt fyrir, að vinnulöggjöf væri sett. Hann hefur barizt fyrir, að sett væri lögregla, sem væri óháð og sterk, og hann hefur barizt á móti því, að sett væri upp lögregla, sem mátti líta svo á, að notuð yrði ranglátlega í skiptum vinnuveitenda og vinnukaupenda.

Ég vil einnig leyfa mér að endurtaka þá ósk til hæstv. atvmrh., að hann spyrjist fyrir hjá sáttasemjara um það, hvort hann hafi nú vikið frá þeirri stefnu, sem fylgt var 1942, þegar fenginn var einn maður úr hverjum flokki til að miðla málum, og hvort fulltrúi Framsfl. hafi brotið svo sérstaklega af sér þá, að þess vegna hafi ekki verið leitað til flokksins nú.