06.09.1944
Sameinað þing: 39. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (5522)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Það er ekki nema eðlilegt, að hv. 6. þm. Reykv. og borgarstjórinn í Reykjavík spyrji svona spurninga. En svo er mál með vexti, að ég hef ekki náð tali af atvmrh. síðustu tvær klukkustundir, og ég get vel trúað því, að hann hafi nú átt samræður við þá hv. þm., sem nú munu vera á leið austur að Ölfusá. Ég veit, að hann mun með þingmönnum athuga, hvaða aðgerðir muni tiltækilegastar og framkvæmanlegastar hið fyrsta. En að öðru leyti skal ég svara því, að ríkisstjórnin hefur ekki tekið neinar ákvarðanir í málinu. Það eru ekki nema tvær klukkustundir síðan ég frétti þetta, og ber mér skylda til að flytja það atvinnu- og samgöngumálaráðherra.