04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (5532)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Út af tveim fyrstu fyrirspurnunum, sem hv. þm. Str. bar fram, hvenær nefnd færi til Englands og af hverju stafaði þessi dráttur á, að sú nefnd yrði send, vil ég benda honum á, að það er mál, sem heyrir undir hæstv. utanrrh., sem ég vænti, að hann muni svara. Ég get þó sagt honum í sambandi við þessa spurningu, að það, sem gerzt hefur í þeim málum, hefur verið rætt í utanríkismálanefnd og að ástæður fyrir því, að ekki hefur verið hægt að koma út mönnum, eru kunnar þeirri nefnd. Ég sé ekki ástæðu til að skýra frá því nú, af hverju það var, en tel ekki ósennilegt, að haldinn verði lokaður fundur þm. um þessar samningagerðir o.fl. mál áður en langt um líður. En hv. þm. hefur aðstöðu til að fylgjast þarna með, því að hann mun eiga sæti í utanríkismálanefnd.

Þá eru það þær spurningar, sem er beint til mín sérstaklega. Í fyrsta lagi, hvort frystihúsin muni halda áfram að kaupa fisk fyrir sama verið og áður. Að svo komnu máli er ekki hægt að segja ákveðið um þetta. Liggur fyrir útdráttur úr samningum, a.m.k. frá sendiherra Íslands í London, sem gefur til kynna kröfur brezka matvælaráðuneytisins um kaup á fiski með töluverðri lækkun frá því, sem áður var. Og ég veit ekki, hvort nokkur tök eru á því að taka upp þá samninga, fyrr en sendinefnd er komin út til viðræðna, þar sem erfitt er að fá sendimann frá Englandi til að koma hingað. Hins vegar er vitað, að fiskverðið er það lágt, að það má helzt ekkert lækka, svo að við eigum ekki á hættu, að útvegurinn dragist saman eða jafnvel stöðvist með öllu. Hann er það illa settur, að það væri vafalaust lítil lausn, þótt verðið til hraðfrystihúsanna yrði lækkað, því að þá fengjum við vandamál á þann hátt, að meira eða minna stöðvaðist eða drægist saman fiskframleiðslan. Eins og nú standa sakir, er ekki hægt að segja um þetta fyrir víst. Ég hef þó heyrt í sölumiðstöð frystihúsanna, að ekkert frystihús fari á stað fyrir 12. þ.m. Fram að þeim tíma skilst mér, að ekki verði frá þeirra hendi neitt gert til að setja húsin á stað, nema það opinbera á einhvern hátt skerist í það mál, sem ekki hefur verið tekin ákvörðun um. Mér er og kunnugt um, að þau hafa spurzt fyrir um það hjá bönkunum, hvort þeir lánuðu sömu upphæð á tonn og þeir höfðu gert áður, en munu hafa fengið heldur daufar undirtektir, eftir því sem ég hef heyrt. Um þetta hafa að vísu ekki verið gerðir neinir skriflegir samningar, heldur hafa þetta aðeins verið munnleg samtöl, en það, sem bankarnir bjóða nú, er það lítið, að frystihúsin munu telja sér ófært að leggja á stað eða byrja vinnslu með þeim fjármunum.

Hvað snertir 3. liðinn, hvort ríkisstjórnin hafi gert ráðstafanir til að útvega skip, þá er það að segja, að þetta mál er í athugun. Hefur það verið rætt við Englendinga, hvort þau fisktökuskip, sem hér hafa verið á undanförnum árum, verði fáanleg til fiskflutninga, en fengið heldur dræmar undirtektir.

Um færeyska þingið er það að segja, að lögþingið hefur gripið inn í þessi mál. Mér skilst af þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hjá sendimanni Færeyinga hér, að tilgangurinn sé sá að tryggja sem flestum færeyskum skipum atvinnu hér við Ísland við veiðar eða flutninga, til þess að sitja ekki við það atvinnuleysi, sem þeir hafa orðið að búa við á undanförnum árum. Er ekki gott að vita, hvað Færeyingar hugsa sér með þessu. Í einni leigustöð er búið að gera samninga um 8 færeysk skip, en ekki ljóst, hvaða kröfur þeir gera til að staðfesta samningana.

Enn fremur hefur verið athugað, hvaða íslenzk skip gæti komið til mála, að tækju að sér ísfiskútflutning. Hefur það verið á döfinni þessa dagana, en ekki hægt að nefna neitt með vissu.

Ákvæði var í fisksölusamningnum um það, að Englendingar skyldu hafa einkarétt til að kaupa fisk hér við Faxaflóa, og lengi vel var Ísafjörður eða Vestfirðir undir sama númeri og jafnvel Vestmannaeyjar um tíma. Þetta var ákvæði, sem þvingað var upp á Íslendinga, því að þeir vildu gjarnan annast sjálfir fiskútflutning frá þessum höfnum, en fengust þó ekki um, því að það var liður í heildarsamningnum. Þetta hafði orðið til þess, að Íslendingar hafa ekki þurft að hafa neinar sérstakar áhyggjur af fiskflutningi frá þessum svæðum. Við sunnanverðan Faxaflóa eru einhverjar stærstu verstöðvar landsins á vetrarvertíðinni og þannig háttað, að ekki er hægt að flytja fisk frá þessum höfnum án þess að það sé gert af sama aðila. Þarf náið samstarf milli þessara hafna, svo að ekki lendi í hreinum vandræðum. Það var þess vegna fyrirsjáanlegt, að ef ekki yrði úr því, að fisksölusamningurinn yrði framlengdur, mundi það verða eitt vandamálið að halda uppi fiskflutningi frá Faxaflóa. Og af þessum ástæðum var það, að fiskimálanefnd gerði í samráði við mig þá uppástungu, að hún tæki að sér þessa flutninga, þar sem ekki var sennilegt, að samtök útvegsmanna sjálfra gætu yfirleitt tekið þetta í sínar hendur.

Um ábyrgðina á fiskverðinu er það að segja, að þessir 45 aurar eru það minnsta, sem hægt er að bjóða, og hefur það sýnt sig, að hentug skip hefðu getað grætt stórar upphæðir á því að kaupa fiskinn á þessu verði hér heima og selja hann á erlendum markaði. Það hefur að vísu orðið dráttur á þessu, því að skipin hafa þurft að bíða. En hefði þess ekki þurft, hefði þetta orðið stór gróðavegur, svo að því að borga 45 aura hér við Faxaflóa er ekki samfara nein áhætta, þar sem svo mikið berst að af fiski. — Þetta gildir nú ekki um alla hluta landsins, þannig að ef flytja ætti fisk frá öllum verstöðvum landsins, yrði að taka tillit til staðhátta og veðurfars, því að þá yrði áhættan vitanlega meiri og yrði þá að athuga sérstaklega í sambandi við aðrar verstöðvar, hvað fært þætti að ábyrgjast, ef út í það væri farið.

Þessi uppástunga fiskimálanefndar er miðuð við þetta stóra vandamál, að koma skipulagi á fiskflutninginn við Faxaflóa, ef til þess kæmi, að Bretar önnuðust ekki þessa flutninga, sem allt virðist benda til, að ekki muni verða.

Þó að hér sé miðað við Faxaflóa, getur vel komið til mála, að farið verði inn á þá braut að aðstoða aðrar fiskstöðvar á svipuðum grundvelli, og vitanlega er æskilegt, að allir fiskimenn landsins geti flutt fisk sinn á erlendan markað og fengið fyrir hann endanlegt verð sitt. Ég efast ekki um, að það sé einmitt þetta, sem geri togaraútgerðinni kleift að þola það, sem nú er orðið, að hún er laus við alla milliliði og getur sjálf flutt sinn fisk á erlendan markað. Yrði það því stórbót fyrir útveginn, ef hægt reyndist að koma þessu skipulagi á, enda er nú þegar nokkur reynsla fengin fyrir því, t.d. á einum stað á Austurlandi, Neskaupstað. Þar tóku útvegsmenn fiskflutninginn í eigin hendur, og núna um áramótin fengu þeir 30% hærra verð fyrir þann fisk, sem þeir gátu flutt út. Sést af þessum tölum, að einskis má láta ófreistað til að reyna þessa leið, að bjarga einmitt þeim hluta af sjávarútveginum, sem er í mestri kreppu.

Þá minntist hv. þm. Str. á nauðsyn þess að festa ábyrgðarverð á ísfiski og saltfiski. Þar horfir allt öðruvísi við, því að þar erum við komnir út í aðra hluti, sem geta verið miklu áhættumeiri eða a.m.k. erfiðara að sjá fyrir, hvenær hættan getur orðið mest, ef ætti að ábyrgjast hraðfrystan fisk og saltfisk. Þar að auki getum við ekki vitað, hvenær við getum selt saltfiskinn og á hvaða verði. Mun hafa komið verðtilboð um saltfisk á s.l. hausti, sem var alls ekki fráleitt og mundi hafa verið gengið að þessu. En þar skárust erlend ríki í leikinn, því að þeir vildu ekki koma okkur að. En þetta getur breytzt. Fyrir liggur tilboð um hraðfrystan fisk, sem er töluvert lægra en verðlag var í fyrra á þessum fiski. Við getum ekki vitað, hvað þeir, sem gera þetta tilboð, standa fast við það. En ég fyrir mitt leyti tel ekki viðunandi að ganga að því eins og það er. Þar að auki er það miðað við England. En mér finnst ekki of mikil bjartsýni að gera sér vonir um, að við getum komizt á markað í Evrópu á því ári, sem er að byrja, og þá vafalaust fengið betra verð en nú.

Sem sagt, ég tel, að ekkert það sé fram komið, að ástæða sé til að slá því föstu, að við getum ekki selt okkar hraðfrysta fisk á því verði, að frystihúsin geti tekið hann fyrir sama verð og samkvæmt enska samningnum í fyrra. Ég hef orðið þess var, að á þeim stöðum austanlands, þar sem gildir sú regla, að fiskframleiðendur sjálfir flytja út sinn fisk, telja þeir ekkert atriði, þó að þeim væri ábyrgzt 45 aurar, því að þeir telja sig örugga með að fá hærra verð en það.

Öll þessi mál eru í athugun, og er mikils um vert, að undinn verði sem bráðastur bugur að þeim, til þess að á einhverju verði að byggja fyrir þá menn. sem koma með fiskinn að landi.