04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (5543)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Ég vil aðeins gefa hv. þm. Str. þá skýringu út af því, að þetta tilboð er bundið þessu skilyrði, „vilji samtök útvegsmanna sinna þessu boði“, þá verður því ekki sinnt, því að önnur samtök eru ekki til en Landssamband útgerðarmanna, og það mun ekki taka því, þegar það getur rekið þessa sölu með miklu meiri hagsmuni fyrir smáútgerðarmenn innan þessa sambands. Mér er kunnugt um, að þar hefur verið rætt um annað en það, sem kom fram hjá hæstv. atvmrh., það hefur verið rætt um að tryggja þessum mönnum hærra verð. Ég skil ekki, þegar hann er að tala um, að eigi að tryggja leiguskipaeigendur. Ég veit ekki, hvort hann veit, hvernig þetta fyrirkomulag er byggt upp. Ef sambandið græðir, þá skiptist það upp, ekki til leiguskipaeigenda, heldur til fiskimannanna sjálfra. Þess vegna er það, að með því að láta landssambandið hafa með þessi mál að gera eru langbezt tryggðir afkomumöguleikar smábátaútvegsins við Faxaflóa, og hvernig geta þá þeir, sem eiga leiguskipin, ákveðið, að gróðinn fari í þeirra vasa ? Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki kynnt sér þessi mál, og væri æskilegt, að hann kynnti sér þau nákvæmlega, áður en nokkuð er gert, sem þvingar menn inn á annað en það, sem gefur sem hagkvæmasta afkomu.