04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (5546)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Það er eitt atriði í næstsíðustu ræðu hv. þm. Barð., sem ég vil svara nokkrum orðum.

Hann segir, að ég hafi ekki kynnt mér, hvað Landssamband útgerðarmanna ætlist fyrir í þessum efnum, en það hefur átt tvisvar sinnum tal við mig og skrifað mér bréf nokkrum dögum fyrir jól. Þá var það þeirra hugmynd, að skipulagið væri þannig, að öll skip keyptu föstu verði og tækju „törn“ eftir ábendingu sambandsstjórnarinnar, sem þeir fóru fram á, að fengi vald til að kommandera skipunum á einstakar hafnir og eingöngu tekin útlend skip að svo miklu leyti sem íslenzk skip kæmu ekki til. Þetta fyrirkomulag var eingöngu miðað við hagsmuni flutningaskipa í landinu. Hitt er annað mál, að eftir að fiskimálanefnd gerði uppástungu sína til fiskimanna við Faxaflóa, hefur sambandið tekið málið til umr. á nýjan leik, þegar því var ljóst, að stj. mundi aldrei fá þetta vald, sem þeir létu sér detta fyrst í hug, en mér er ekki kunnugt um, hvað þar hefur skeð þessa dagana. Það er því ekki rangt, sem ég hef fram tekið, þó að þeir hafi nú breytt til og athugað málið á nýjan leik, sem vel getur verið rétt, og kemur það þá væntanlega fram síðar.