04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (5547)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Eins og ég sagði í upphafi þessa máls, þá er síður en svo, að ég finni að því, heldur þvert á móti ber að þakka, að allt sé gert, sem hægt er, af hálfu hæstv. stj. til að koma málum svo fyrir, að fiskimenn og útgerðarmenn geti fengið rétt verð fyrir fiskinn. Hitt er annað mál, hvernig þessum málum verður fyrir komið.

Eins og ég tók fram í upphafi, þá ætlaði ég ekki að ræða þetta mál í heild, heldur gera fyrirspurn til hæstv. stj. um, hvernig þessi mál stæðu. Ég get þó látið þá skoðun mína í ljós án þess að fara inn á umr. um það eða gefa tilefni til umr., að ég er þeirrar skoðunar, að hæstv. stj. ætti fyrir milligöngu fiskimálan. eða á annan hátt að styðja samlögin fyrst og fremst. Þarf að sjálfsögðu til þess löggjöf. Aðili frá stj. gæti síðan skipt skipunum milli samlaganna og annazt annað, sem þeim er nauðsyn að fá frá ríkisvaldinu til að vera örugg með rekstur sinn. Þetta er mín skoðun á málinu.

Annars stóð ég nú sérstaklega upp til að leiðrétta hv. 6. landsk. Hann taldi, að staðhæfing mín um ábyrgð á fiskverðinu væri misskilningur, og gaf þá skýringu, sem hæstv. atvmrh. sá ekki ástæðu til að gefa, enda er það auðsætt mál, að tilboðið verður að skýrast frá því, sem fyrir liggur í bréfinu, en ekki hugmyndum þeirra, sem skrifa tilboðið. Tilboð fiskimálanefndar er um, að hún annist ísfiskflutninga fyrir fiskframleiðendur við Faxaflóa á komandi vertíð með eftirfarandi hætti. Í 1. liðnum segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin afli með aðstoð ríkisvaldsins nægilega margra skipa til fiskflutninganna og ráðstafi þeim milli útflutningshafna eftir því sem þörf krefur og ástæður leyfa.“ Þó að hér sé sagt „eftir því sem þörf krefur og ástæður leyfa,“ þá getur það ekki, eftir því hvernig tilboð eru skýrð, dregið úr því, að hér er ákveðið loforð. Og í ofanálag á þetta lofar n. í 2. lið að greiða sama verð fyrir fiskinn og greitt var á síðasta ári og sama heildarverð. Það er einkennilegt tilboð að segjast ábyrgjast 45 aura verð á fiskinum og segja sem svo: Ég skal taka þetta brot af fiskinum, en hann verður að flytjast út undir öðru formi. Hvers virði er þá ábyrgðin, ef fiskurinn er ekki fluttur út, heldur frystur eða saltaður og seldur lágu verði? Hvar er þá ábyrgðin? Hvar eru þá skip eftir þörfum til að flytja fiskinn ísaðan?

En svo er annað. Með því að lofa að greiða allan hagnað, sem af því kann að verða að flytja fiskinn út ísaðan, þá er stigið skref, sem er varhugavert fyrir aðrar sakir, því að með því er komið í veg fyrir, að hægt sé að reka frystihúsin. Það hefði getað verið skynsamleg ráðstöfun að lofa ekki öllum ágóðanum. heldur jafna á milli útflutta fisksins og þess fisks, sem þarf til að geta rekið frystihúsin, en með þessu tilboði er ekki eingöngu lofað að hafa nægileg skip til að flytja fiskinn út, heldur líka að greiða allan hagnaðinn, svo að þá er ómögulegt að gera það, sem eðlilegt var að gera, en það var að nota hagnaðinn af ísfiskinum til að jafna verðið á frosna fiskinum. Fiskframleiðendur eiga kröfu á að fá allan fiskinn fluttan út og allan hagnaðinn af honum, svo að þá yrði að loka íshúsunum. Öðruvísi verður það ekki skilið, því að það er ekki nóg að segja eftir á, að meiningin hafi verið þessi og þessi og svona og svona hafi átt að skilja tilboðið. Kannske verður ekkert af þessu samþ., og þá kemur það ekki til framkvæmda, en þetta, sem ég hef nú lýst, er það, sem tilboðið fjallar um, og ég vænti, að hv. þm. sjái, að svona ábyrgð getur hvorki fiskimálan. né aðrir tekið, nema með því að skuldbinda sig til að flytja allan fiskinn, nema með því móti að borga verðmuninn á frysta fiskinum úr ríkissjóði, annars er tilboðið ekkert tilboð og ábyrgðin engin ábyrgð.