04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2009 í B-deild Alþingistíðinda. (5551)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Ég hafði ekki ætlað mér að ráðast sérstaklega á ríkisstj. fyrir þetta mál. En þegar einn ráðherra gerir slíkt tilboð, að því er virðist án þess að fá samþykki hinna ráðherranna, er nauðsyn, að þm. fái að vita, hvað í því felst. Í umboði ráðh. segir n., að eftir þessar athuganir telji hún, „að með velviljaðri aðstoð ríkisvaldsins verði hægt að afla nægilegra skipa til flutninga,“ ef ráðstafanir séu gerðar í tæka tíð. Einnig er upplýst, að velviljinn hjá ríkisstj. er tryggður, þar sem vitað er, að bréfið er að nokkru leyti samið af ráðh. Því er lofað að afla nógra skipa og hafa þau í flutningum eftir þörfum og borga sama verð og í fyrra. Og svo kemur það fyrir, að þm. stendur upp og skýrir þetta svo, að ábyrgðin sé ekki nein. Hvers virði eru þá loforðin, ef engin ábyrgð er tekin á því, að unnt verði að flytja fiskinn? Rökræður um þetta þarf vitanlega ekki að lengja í þeim hóp, sem hér hlustar.

Ég mun þegar leita mér upplýsinga um þann vináttugreiða brezku stjórnarinnar, sem hæstv. ráðh. (FJ) gaf í skyn, að hún hefði enn neitað að taka móti samningamönnum til að endurnýja samning, sem fallinn er úr gildi, svo að allt er í öngþveiti. Svo mikið er víst, að mér er ekki kunnugt um, að það hafi komið fram í utanrmn. Þessi orð ráðh. eru vissulega eftirtektarverð, þó að seint komi fram, og þess verð, að Alþingi sé ekki dulið slíks. Sami hæstv. ráðh. hefur ekki skilið það, sem ég sagði um verðjöfnun, og fór þess vegna rangt með það, en ég sagði, að slæmt væri, að þetta tilboð hefði verið gert, ef síðan þyrfti að grípa til þeirra verðjöfnunarúrræða, sem ég nefndi.

Það er náttúrlega óviðunandi, að samningamenn okkar skuli ekki vera komnir út til samninga, þegar samningstími er útrunninn. Stór afsökun er vitanlega í upplýsingum ráðh., ef þær styðjast við rök. Ég neita því, að pólitísk afstaða hafi ráðið nokkru um fyrirspurn mína. Og ég hef farið að henni með meiri varygð en raunar er nauðsynlegt. Það er eiginlega alls ekki hættulegt að ræða utanríkismál á opnum þingfundum, ef það er gert á réttan hátt. Við verðum að venja okkur á að gera það eins og allar menningarþjóðir gera, fyrir opnum tjöldum.