10.01.1945
Neðri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (5554)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Aðeins örfá orð, enda tæplega hægt að fara út í langar umræður á þessu stigi málsins. En þó verð ég að láta í ljós óánægju og vonbrigði yfir svörum hæstv. forsrh., og má þó vera, að hann sé ekki jafnkunnugur þessum málum og atvmrh., sem þau heyra undir. En sjálfsagt getur mikill misskilningur um þetta mál rúmazt enn, þrátt fyrir þær umræður, sem orðið hafa milli mín og hæstv. forsrh. Mun ég þá nota tækifærið á morgun, ef atvmrh. verður við. til að grennslast ofurlítið nánar um einstök atriði, sem þýðingarmikið er, að allir viti nú þegar. Ég spurðist fyrir um það, hvort samlögum útvegsmanna væri ætlað að borga þetta verðjöfnunargjald, m.ö.o. hvort þetta gjald ætti aðeins að leggja á keyptan fisk, eins og orðalag auglýsingarinnar segir, eða hvort bæri að skoða orðalagið svo, að einnig væri átt við þann fisk, sem tekinn er til útflutnings fyrir reikning eiganda. Þessu svaraði ráðh. ekki neitandi, en lét þó falla orð í þá átt, að verðjöfnunarskatturinn ætti að falla til samlaganna sjálfra. En það er náttúrlega óskiljanlegt með öllu, hvað hæstv. ráðh. meinar með þessu, nema hann kannske meini það, að hvert samlag eigi að vera verðjöfnunarsvæði. En ég geri ekki ráð fyrir, að þetta verði nánar upplýst að sinni, og má þá spyrjast fyrir síðar.

Ég spurði um það, hvort verðjöfnunargjald ætti ekki að ná einnig til togarafisks. Svaraði hæstv. ráðh. því alveg afdráttarlaust, að ekki væri meiningin að blanda inn í þetta neinu óviðkomandi og þetta gjald ætti ekki að ná til þess fisks, sem aflaðist á togara og fluttur væri á erlendan markað. Ég verð að segja, að þarna er ég á alveg gagnstæðri skoðun. Ef ætlunin er að fara út í verðjöfnun á fiski, þá er sjálfsagt, að togarafiskurinn verði tekinn með. Þetta liggur alveg í hlutarins eðli. Það er sem sé gert ráð fyrir að fara inn á þá braut með verðjöfnuninni, að sá fiskur, sem selst bezt, skuli bera nokkuð af verði þess fisks, sem selst lakar. Og þegar gengið er inn á þessa braut á annað borð, þá er ekki minnsti eðlismunur á fiski, sem seldur er vel af togurum eða seldur vel af flutningsskipum, sem kaupa,fiskinn af smábátaeigendum annars vegar, og hins vegar þeim fiski, sem tekinn er af smábátaeigendum og seldur fyrir þeirra reikning. Hér hlýtur því að vera um misskilning að ræða, sem verður að sjálfsögðu leiðréttur, þegar menn athuga málið nánar, því að slík markalína sem þessi er ekki til að því er fiskinn snertir. En það er varla viðeigandi að ræða þetta mál til þrautar í sambandi við þessa fyrirspurn.

Ég spurði, hvernig verðjöfnunarsvæðin væru hugsuð. Hæstv. ráðh. upplýsti, að þetta væri óákveðið. Þar með er upplýst, að stj. hefur ekki enn þá tekið stefnu í verðjöfnunarmálinu, þó að hún hafi ákveðið að láta innheimta verðjöfnunargjald. Því að vitanlega getur orðið grundvallarmismunur á verðjöfnun eftir því, hvaða reglur eru um verðjöfnunarsvæðin og verðjöfnun á milli einstakra tegunda.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta mál nú, en ég lýsi aftur þeirri skoðun minni, að það er ómögulegt að túlka l. um útflutningsverzlun frá 1939 svo frjálst. að með „klausuíu“ um útflutningsvörur megi framkvæma ótakmarkaða verðjöfnun innan lands með hvaða hætti sem manni sýnist. Því að það vita allir, að ekki er ætlazt til þess, að svo víðtækt vald væri fengið í hendur stjórnum eða einstökum n. með þessari löggjöf. Og auðvitað var það meiningin með útflutningsl., að ríkisstj. gæti haft fullt eftirlit með útflutningsverzluninni, ekki sízt þar sem l. voru sett með það fyrir augum, að menn seldu ekki óeðlilega lágt vörur sínar úr landi. Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að settar hafa verið þýðingarmiklar skerðingar í sambandi við útflutning vara. Um það vísaði hann til þessara laga. En mig rekur ekki minni til, að nokkurn tíma hafi verið framkvæmdar samkv. þessum l. svo víðtækar ráðstafanir sem þessi verðjöfnun á fiski hlýtur að verða. Hlýtur þá að koma til athugunar, hvort fordæmi er fyrir slíku. En mér virðist, að við ættum allir að geta orðið sammála um að setja alveg sérstaka löggjöf um svo þýðingarmikið mál sem fiskútflutningurinn er, og þá ekki sízt um þennan nýja þátt, verðjöfnun á fiski. Vil ég þess vegna gera ráð fyrir, að sá háttur verði upp tekinn.

Þá er eitt atriði, sem ég beindi til hæstv. ráðh., hvort fiskimálan. ætli að flytja frystan fisk fyrir útgerðarmenn, hvort hún hafi fundið lágmarksverð á hann og hvort hann mundi koma undir verðjöfnunargjald. Hann svaraði því ekki, og mun ég því beina því til þess ráðh., sem málið heyrir undir.

Þá þóttist ég heyra það á hæstv. ráðh., að ekki væri meiningin að hafa afskipti af leigumálunum eða leiguskipunum til samlaganna, og tel ég það miður farið.

Að öðru leyti skal ég ekki fara frekar út í þetta mál, þar sem það er líka svo vaxið, að ekki er ástæða til að ræða það frekar nú.