16.01.1945
Sameinað þing: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (5595)

243. mál, raforkuveita Reyðarfjarðarhrepps

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. — Þessi till. fer fram á, að hv. Alþ. taki að sér að ábyrgjast 1/2 millj. kr. lán til endurbóta á raforkuveitu Reyðarfjarðarhrepps. Raforkuveitan er nú orðin alveg ófullnægjandi, og verður ekki hjá því komizt að ráðast í stækkun hennar svo fljótt sem auðið er. Við ætluðum, að á þessum málum yrði tekið í heild og þetta mundi þá falla þar í, en á því mun nú verða bið. Við höfum áætlun um þetta frá Rafmagnseftirliti ríkisins, og munum við afhenda fjvn. öll þau gögn, sem fyrir eru í þessu máli. Ég vona svo, að við verðum ekki látnir gjalda þess, að við biðum með að flytja þessa till. þangað til við sáum, hvaða heildarstefna yrði tekin í þessum málum, en legg til, að till. verði vísað til fjvn.