18.09.1944
Sameinað þing: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2021 í B-deild Alþingistíðinda. (5609)

Landbúnaðarvísitala og kjötverð

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Út af fyrirspurn hv. þm. Mýr. er mér ljúft að upplýsa, að á síðastl. ári og fram á þetta ár var reynt mjög til þess að finna markað hjá hinum sameinuðu þjóðum fyrir hrossakjöt í einhverri mynd. Fyrsta tilraunin strandaði, því að viðkomandi stofnanir í Bretlandi og Bandaríkjunum svöruðu því, að þær hefðu enga „interessu“ af að kaupa þetta kjöt, en eftir frekari tilraunir vildu þær taka til athugunar að kaupa allmikið af niðursoðnu hrossakjöti. Var þá rannsakað, hvað það mundi kosta að meðhöndla kjötið á þann hátt, sem óskað var eftir, en það kom í ljós, að kostnaðurinn varð svo mikill, að allt strandaði. Það verð, sem talið var líklegt, að mætti fá, hrökk ekki einu sinni fyrir tilkostnaði. Það er verið að gera enn eina tilraun til að komast að samningum, en henni er ekki lokið enn þá, og af reynslunni tel ég vonlaust, að kaupandi fáist að niðursoðnu hrossakjöti. — Því miður er þetta svo.