21.10.1944
Sameinað þing: 60. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (5619)

Stjórnarskipti

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan, þegar hann flutti ríkisstj. heillaóskir, að það væri ekki venja að ræða stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar, enda hefur það ekki verið gert, heldur bara bornar fram athugasemdir um hina langdrægu stjórnarmyndunarsamninga.

Það, sem hv. 4. landsk. þm. (StJSt) sagði um viðtal okkar við hann um hugsanlega stjtórnarmyndun, var rétt, nema að því leyti, að viðtölin voru tvö. Í annað skiptið var ég einn, en í hitt skiptið vorum við tveir, hv. þm. Str. og ég, og var þá gengið frá málinu nákvæmlega á sama hátt og ég sagði frá.

Hæstv. forsrh. vildi álíta, að nokkurrar ónákvæmni gætti í frásögn minni. Það er náttúrlega ekki í fáum orðum hægt að segja frá öllu því, sem gerzt hefur, en ég fullyrði þó, að mín ummæli gefa rétta mynd af því, sem Framsfl. aðhafðist. Aðstöðuna að öðru leyti ræddi ég ekki.

Hæstv. forsrh. sagði í fyrri ræðu sinni, að við framsóknarmenn hefðum neitað samstarfstilboði frá Sjálfstfl. Ég upplýsti áðan, að slíkt tilboð hefði Framsfl. aldrei fengið. Það var aðeins um lausleg viðtöl að ræða, en samstarfstilboð kom aldrei, svo að engu tilboði hefur verið hafnað. Hitt er rétt, að hann átti tal við n. frá Framsfl. rétt eftir að honum var falið að gangast fyrir stjórnarmyndun. Í því var stungið upp á ákveðnum manni til að fara með forsæti stjórnarinnar, en það var fullljóst af tilboðinu sjálfu og eins því, sem á eftir fór, að sú uppástunga framsóknarmanna var ekki úrslitakostir. Uppástungan er rökstudd í bréfi framsóknarmanna á þessa lund: [Vantar í hndr.]

Það er því greinilegt, að till. er sett fram af því, að Framsfl. áleit heppilegast, að hlutlaus maður færi með forsætið. Hæstv. forsrh. og mörgum öðrum þm. var það vel kunnugt, að það var ekki ætlunin að binda sig endilega við þennan eina mann, heldur var gert ráð fyrir gagntill. frá Sjálfstfl., enda þarf ekki að fara í neinar grafgötur með þetta, þar sem þeim eina fundi, sem um þetta tilboð var haldinn, var slitið þannig, að sérstakir menn voru settir til þess að athuga um málefnagrundvöll og undirbúning að næsta fundi, sem aldrei var haldinn. Slíkt náði engri átt, ef þetta hefðu verið úrslitakostir, sem um var að ræða.