01.02.1944
Sameinað þing: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (5623)

40 ára afmæli innlendrar ráðherrastjórnar

forseti (GSv):

Háttvirtu alþingismenn! Í dag teljast liðin 40 ár frá því er innlend ráðherrastjórn var stofnsett á Íslandi, sem sé 1. febrúar 1904, og þar með komið skipan á eðlilegt þingræði í framkvæmd. Mun þessa atburðar að tilhlutun ríkisstjórnarinnar verða minnzt fyrir alþjóð með útvarpserindi í kvöld.

Það mun nú engum dulið, að með þessari breytingu var stigið hið mikilsverðasta spor í áttina til raunverulegs sjálfsforræðis íslendinga, þótt um hitt væri deilt, svo sem vonlegt var, hvort lengra hefði mátt komast í það sinn eður eigi. En síðan hefur það ekki orkað tvímælis, að í stjórnarfari þessa lands var þingræði — parlamentarismi — ríkjandi regla.

En í sambandi við þennan merkisatburð í sögu landsins, Alþingis og ríkisstjórnar ber að minnast þess manns, er hér átti þá einna mestan hlut að máli, þess manns, sem um langa hríð var á ýmsa lund sjálfkjörinn foringi á þingi og í stjórn, eins hins allra glæsilegasta manns, sem Ísland hefur alið, með andlegum og líkamlegum yfirburðum fram yfir flesta aðra Íslendinga á síðari tímum, Hannesar Hafsteins. Hann varð fyrstur ráðherra á Íslandi. Er saga hans enn að miklu leyti óskrifuð, og þau fjölmörgu og mikilsverðu mál, er hann beitti sér fyrir og kom í framkvæmd, eigi nærri til hlítar rakin eða þýðing þeirra fyrir þjóðlíf vort. Bíður þetta verkefni söguritaranna, eins og raunar fjölmargt annað mikilvægt og afdrifaríkt í þróunarsögu þessarar þjóðar.

Til minningar um þessa atburði og þennan forustumann bið ég hv. þingmenn að risa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]