06.02.1945
Sameinað þing: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (5644)

268. mál, flutningur hengibrúar frá Selfossi að Iðu

Helgi Jónasson:

Ég vil taka undir það með hv. samþm. mínum, að okkur vantar brú á Hólmsá. En brúarstæði þar hefur verið rannsakað á ýmsum stöðum, og ég fyrir mitt leyti hef enga trú á því, að hægt verði að notast við þessa brú á Hólmsá, eins og hún er, því að sannleikurinn er sá, að Hólmsá er þannig úr garði gerð og það vatnsmikil, að það hefur staðið styrr um það, hvað mætti þrengja hana mikið þar, sem brú yrði sett. Ég er þeirrar skoðunar, ef ætti að nota þessa brú á Hólmsá, þá þyrfti að þrengja ána svo mikið, að engar líkur séu til þess, að hægt yrði að nota hana á Hólmsá og ekki heldur hjá Iðu, og af því að ég býst ekki heldur við því, að hægt verði að nota hana á Hólmsá eða Iðu, þá kom ég ekki með brtt. En ef það skyldi reynast svo, að hægt væri að nota brúna á Hólmsá og vegamálastjóri teldi það heppilegra en nota hana á Iðu, þá er náttúrlega ekkert á móti því.