06.02.1945
Sameinað þing: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (5645)

268. mál, flutningur hengibrúar frá Selfossi að Iðu

Eiríkur Einarsson:

Ég vil einungis taka það fram til andsvara því, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að það er drengilega mælt hjá honum að vilja ekki fara í hreppapólitík í þessu máli. Það er nú einu sinni svo, að þessi till., eins og hún liggur fyrir, er ákvörðun um rannsókn á þessu, sem við erum að tala um. Mér finnst því fávíslegt að vera að leiða getur að því, hvar verði tiltækilegt að nota þessa brú. Málið er komið á þann rekspöl, ef till. verður samþ., að það skuli rannsaka með gaumgæfni af fagmönnum, hvort hún sé nothæf á sjálfa ána, sem hún er tekin af. Það er rétt, að það er til brúarstæði á Hvítá samkvæmt brúarl., sem er nær en Iða, það vantar brú hjá Kiðjabergi, en það nefnir enginn, þótt það kannske hentaði betur, því að það er ekki eins aðkallandi að fá brú þar. Ég hygg líka, að Hólmsárbrúin kæmi sér vel og það séu miklar þarfir þar á bak við, en brú hjá Iðu er áreiðanlega enn þá meira aðkallandi, og mér finnst hv. 2. þm. Rang. líka skilja það vel, að með tilliti til læknissóknar sé þessi þörf ákaflega brýn, og það er málefni, sem hv. 1. þm. Rang. ætti að bera sérstaklega gott skyn á, að því stærri nauðsyn er þetta, sem það nær til fleiri manna. En ef það reyndist svo, að brúin hentaði ekki á þessum stað, þá vildi ég gjarnan, að hún kæmi öðrum í góðar þarfir í samræmi við það, sem þessir hv. þm. hafa verið að hafa orð á.

Ég vil svo leyfa mér að votta þeim mönnum þakklæti, sem hafa mælt með till., og vil vona, að hæstv. Alþ. sjái sér fært að samþ. till. eins og hún liggur fyrir.