24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í D-deild Alþingistíðinda. (5670)

263. mál, lendingarbætur á Hellissandi

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Till. fer fram á að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að 25 þús. kr. lán til lendingarbóta á Hellissandi. Það var í fyrra vor, að ég flutti frv. í hv. Nd. um þetta efni. Í því var farið fram á, eins og í öðrum l. um lendingarbætur, að ríkisábyrgð yrði veitt fyrir helmingi þess kostnaðar, sem hreppurinn þyrfti sjálfur að leggja fram. Þegar leitað var álits vitamálastjóra um það mál, taldi hann rétt að fresta afgreiðslu frv. þessa, unz rannsókn hefði farið fram á hafnargerð í Rifsósi, sem liggur rúmlega 2 km frá Hellissandi.

Á s. l. sumri var hins vegar unnið að bryggjugerð á Hellissandi, og varð kostnaðurinn við það rúmlega 110 þús. kr. Helmingur þeirrar upphæðar var veittur á þrennum fjárl., og eru það því 55 þús. kr., sem hreppurinn sjálfur á að leggja fram. Hefur tekizt að útvega lán fyrir rúmlega 30 þús. kr. án ríkis- og sýsluábyrgðar, en útilokað er af skiljanlegum ástæðum, að hreppurinn geti fengið lán fyrir öllu án atbeina annarra. Nú er auðvitað fullkomið sanngirnismál, að þessi hreppur, sem aðrir, fái ríkisábyrgð, og má ekki láta hann gjalda þess, þótt heppilegra þyki að fresta frv. um lendingarbætur á Hellissandi um leið og athugun á Rifsósi fer fram.

Þessi till. um ríkisábyrgð fyrir allt að 25 þús. kr. er flutt í því skyni að greiða nokkurn hluta af framlagi hreppeins til þeirra lendingarbóta, sem framkvæmdar voru á s. l. sumri, en enn eru í skuld.

Ég skal að öðru leyti vísa til grg. fyrir þessari till. og enn fremur til nál. um frv. til l. um lendingarbætur á Hellissandi á þskj. 919, og er þar birt með álitsgerð vitamálastjóra um þetta mál. Ég legg svo til, að till. verði vísað til hv. fjvn.