06.02.1945
Sameinað þing: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (5672)

263. mál, lendingarbætur á Hellissandi

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég get langsamlega að mestu leyti vitnað til nál., sem fjvn. hefur gefið út um þetta mál. Þar er tekin fram ástæðan fyrir því, að farið er fram á þessa ábyrgð með þeim hætti, sem hér er gert, og hún er sú, að það hefur verið frestað að setja l. um lendingarbætur í Ólafsvík, sem stafar af því annars vegar, að það er sýnt, að það er ákaflega miklum erfiðleikum bundið að gera þær lendingarbætur, þar sem hafizt hefur verið handa um þær, þannig úr garði, að nokkur veruleg þróun geti orðið í útgerð þar og að bátarnir geti stækkað, sem er að sjálfsögðu nauðsynlegur liður fyrir framtíðarafkomu manna á þessum stað. Hins vegar er verið að athuga möguleika í Rifsósi við Ólafsvík fyrir því að geta fengið þar fiskihöfn. Af þessari ástæðu hafði sú ákvörðun verið tekin að slá á frest samþykkt þess frv., sem hv. þm. Snæf. flutti á öndverðu þessu þingi, en með tilliti til þess, að Ólafsvíkurbúar þurfa vegna framkvæmda, sem gerðar voru á s. l. sumri, endilega að fá ábyrgð fyrir láni, til þess að geta fengið hagkvæmt lán í þessu skyni, þótti fjvn. af þeirri ástæðu, sem hér greinir, forsvaranlegt að víkja frá þeirri reglu í þessu tilfelli, sem hún annars heldur sér við, að veita ekki ábyrgð fyrir slíku láni öðruvísi en heimild sé gefin fyrir því í viðkomandi hafnarl.

Hér er aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, því að annaðhvort verður Rifsós gerður svo úr garði, að útgerðarmenn úr Ólafsvík geti flutt þangað, eða hafizt verður handa á ný um frekari endurbætur í Ólafsvík sjálfri, og þá mundu verða samþykkt hafnarl. í því sambandi, sem veittu ábyrgð fyrir láninu.

Fjvn. leggur til af þessari ástæðu, að þessi ábyrgð verði veitt í því formi, sem hún liggur fyrir, til þess að leysa þann vanda, sem Ólafsvíkurbúar eru í í sambandi við lántöku vegna framkvæmdanna á s. l. sumri.