30.01.1945
Sameinað þing: 89. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (5698)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Jörundur Brynjólfsson:

Það eru aðeins nokkur orð.

Það er afar skiljanlegt, að hv. þm. óski þess, að ríkisreikningurinn fyrir umliðin ár kæmi fyrr tilbúinn til afgr. fyrir Alþ. Ef eitthvað væri athugavert við reikninginn, væri auðveldara að ná til þeirra, sem ábyrgðina bera, ef um eitthvað slíkt væri að ræða. Þetta eru mjög einfaldar og skiljanlegar ástæður, það er ekki hægt annað en að taka undir það. Hins vegar hef ég fyrir mitt leyti, svona fyrir fram, ekki sérstaklega mikla trú á því, að Alþ. kunni að láta mjög til sín taka í því, þótt eitthvað væri áfátt um starfrækslu ríkisins, ef því væri skotið til Alþ. Því að ég veit ekki betur en árum saman hafi um nokkur atriði verið athugavert, sem snertir starfrækslu hins opinbera og ríkisreikninginn, sem bent hefur .verið á af endurskoðunarmönnum ríkisreikningsins, þar sem þeir töldu rétt að gera einhverjar ráðstafanir. — Þetta er ekki um stórvægileg atriði að ræða, en þó þess eðlis, að ekki væri rétt, að slíkt héldi áfram á sömu braut. En ég man ekki til, að nú um langan tíma hafi þingið í eitt einasta skipti fallizt á að gera nokkurn hlut út af þeim. Þetta hafa ekki verið stór atriði eða örlagarík, sem þannig skipta miklu máli, heldur hver skipan væri höfð um það atriði, sem um var að ræða í það og það skiptið. En það hafði ekki út af fyrir sig nein sérstök áhrif á fjárhagsafkomu ríkisins. En í þessum efnum hefur þinginu ekki fundizt ástæða til þess að láta það sig neinu varða.

Um það atriði, hvernig á því stendur, að ríkisreikningurinn er farinn að vera nú venju fremur síðbúinn, þá kemur þar ýmislegt til greina. Það mun vera nokkuð rétt, sem talið er upp í þessu bréfi, það sem það nær, en margt fleira kemur til greina, t. d. að reikningi frá fyrra ári er ekki lokað fyrr en seint á sumri eða seint að hausti. Þá mun það skiljanlegt, að það mun taka nokkurn tíma fyrir ríkisbókhaldið að gera reikninginn upp, eftir að honum er lokað. Það er að vísu hægt að hefja undirbúning með uppgerð ríkisreikningsins, en þó er ekki hægt að ganga frá því verki, fyrr en búið er að loka reikningnum. Nú var það um nokkurt skeið venja, að fljótlega á árinu var reikningnum lokað, — ég hygg í apríl eða maí —, og það hafi ekki dregizt lengra fram á vorið. Hin síðari ár hefur þetta dregizt nokkuð lengur. En ég vil ekki telja, að það stafí neitt sérstaklega af hirðuleysi þeirra manna, sem um það hafa átt að fjalla, t. d. þeirra ráðherra, sem um það hafa þurft að taka ákvörðun, hvenær reikningnum væri lokað. Það stafar áreiðanlega fyrst og fremst af rás tímanna og því, hvernig háttað hefur verið um ýmislegt í þjóðlífi okkar nú hin síðustu ár. Það hafa verið svo óvenjulegir tímar, sem gripið hafa meira og minna inn í athafnalíf þjóðarinnar, sem áreiðanlega hafa orðið þess valdandi, að svo síðla hefur verið lokið reikningsuppgerð ríkisins af hálfu ráðuneytisins hin síðari ár. Þetta er samt sem áður bagalegt. Því að fyrir þær sakir kemur reikningurinn seinna til yfirskoðunarmanna en annars mundi vera, ef reikningnum vxri lokað fyrr. Þar við bætist svo, að ríkisprentsmiðjan, eins og í bréfinu stendur, á svo annríkt einkum í seinni tíð, að hún hefur ekki komizt nærri yfir það, sem hún þyrfti að prenta fyrir hið opinbera. Þess vegna hefur orðið að flýja frá ríkisprentsmiðjunni með prentun ýmissa skjala og bóka fyrir það opinbera, og t. d. upp í Borgarfjörð með prentun þingtíðinda. Nú hefur það komið fyrir einmitt fyrir þessar sakir, að yfirskoðunarmenn hafa orðið að byrja á verki sínu, áður en búið var að prenta reikninginn, og með þeirri tilhögun getur það nokkuð torveldað allt verkið, og sérstaklega er það miklu meira verk fyrir yfirskoðunarmenn hans, ef þeir þurfa að vinna verkið, áður en búið er að prenta reikninginn. Þetta hefur samt sem áður orðið að gera til þess að reyna að flýta fyrir afgreiðslu reikningsins. Endurskoðun á ríkisreikningnum fyrir árið 1942 er af okkar hálfu nú nær lokið og hefði vafalaust verið lokið, ef við hefðum ekki verið, eins og aðrir þm., bundnir mjög af störfum þingsins. Mestur hluti s. l. árs má heita að hafi farið í þinghald. Þá hefur það og tafið mjög verk okkar, hvernig hefur verið háttað með það húsnæði, sem við höfum átt við að búa. Við höfum verið á mestu hrakhólum og átt erfitt með að koma okkur fyrir til þess að vinna þetta verk. Stundum höfum við orðið að fara út í bæ og fá okkur þar einhverja kompu til þess að vinna í. Hjá ríkisféhirði fengum við herbergi, sem er áfast við vinnustofu fólksins, og höfðum við af þess hálfu gott næði, eftir því, sem frekast var hægt. Þó var það þannig, að fólkið, sem starfar þarna, hafði hina mestu þörf fyrir þetta húsnæði, því að það var vinnustofa þess. Þegar við svo komum að okkar verki, urðum við að reka þetta fólk frá starfinu, og það þurfti þess vegna að vinna innan um skarkalann í afgreiðslusalnum. Það þurfti að taka saman pjönkur sínar, þegar við komum til þess að vinna, og sama máli gegndi með okkur, þegar við fórum, —við urðum að taka saman og koma plöggum okkar út í horn. Þá vita allir hv. þm., hvernig háttað er húsnæði hér í þinginu; ef menn koma til þess að tala við þm., verða menn oftast að tala við þá á göngunum, hversu brýn erindi sem þeir eiga við þá. Herbergi til slíkra viðtala er ekki til í þinghúsinu. Það hafa að vísu verið herbergi til hér, sem eru upptekin til geymslu, og er þar hin versta aðstaða til vinnu. Það má þess vegna telja þetta eina af þeim ástæðum, sem hefur haft áhrif á að tefja þetta verk, þannig að til þessara tafa liggja ýmsar orsakir.

Ég tel mig geta mælt fyrir munn allra endurskoðunarmanna, að við mundum óska þess, að verk okkar tæki sem stytztan tíma, og við höfum gert það eftir ýtrustu getu að ljúka verkinu og koma reikningnum frá okkur. En þótt starfi okkar sé lokið, þá er reikningurinn ekki strax kominn fyrir þingið. Fyrst þarf stjórnarráðið að hafa sitt tóm til þess að svara athugasemdum, ef þær hafa gripið inn í atriði, sem ekki liggja augljóst fyrir. Þá kemur aftur að því, hve langan tíma það tekur að fá reikninginn prentaðan.

Þó að ég dragi nú þetta hér fram við þessa umr., þá er ég alls ekki að amast við þessari þáltill. Mér þykir hún mjög eðlileg. En ég vil samt sem áður, um leið og slík ályktun er tekin, að það liggi ljóst fyrir, hvernig þessum málum er háttað, og að það eru nokkur atriði viðvíkjandi þessu verki, sem ástæða er til að ráða bót á, svo að auðveldara verði þá að ljúka verkinu.

Viðvíkjandi því atriði, sem ég minntist á áðan um lokun reikningsins, þá má maður kannske vænta þess, að tímarnir fari að breytast og komast á meira jafnvægi en verið hefur. Og mætti þá um leið gera ráð fyrir því, að hægt væri að loka reikningnum fyrr á næsta ári en gert hefur verið um nokkurt skeið.