07.02.1945
Sameinað þing: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í D-deild Alþingistíðinda. (5703)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Jörundur Brynjólfsson:

Það er síður en svo, að ég vilji andmæla því, að reynt sé það, sem hægt er, til þess að lokun, prentun og endurskoðun ríkisreikninganna verði hraðað. En ég tel hæpið, að þessi ályktun fái staðizt með því orðalagi, sem n. hefur á þskj. 1025. Mér sýnist, að svo geti þá farið, að gersamlega ómögulegt verði að fullnægja ákvæðum till., og nær hún þá alls engum tilgangi. Ef ríkisreikningurinn á að liggja fyrir til samþykktar Alþingis „fyrir lok næsta árs á eftir,“ eins og það er orðað í till., þ. e. næsta árs eftir reikningsárið, skilst mér, þá verður hann að vera tilbúinn í tæka tíð til að koma fyrir Alþingi þess árs. Með þeim þingtíma, sem ákveðinn er í l., er þetta ekki hægt. Í framkvæmd verður það þannig. S. l. ár var 1944, og nú ætti þing ársins 1945 eftir l. að koma saman 15. þ. m. og endurskoðaður ríkisreikningur að leggjast fyrir það. Það væri útilokað, hversu góðum mannafla sem á væri að skipa og hvað góðar aðstæður sem væru til endurskoðunar, og jafnvel þótt þing stæði fram eftir vori, kæmi sjaldan fyrir, að þetta reyndist hægt. Reikningum ríkisins er aldrei lokað fyrr en á útmánuðum, sjaldan fyrr en í apríl, þegar vel lætur. Það stafar af því, að ýmsar skilagreinir frá embættismönnum vantar þangað til, án þess að hægt sé að kenna vítaverðri vanrækslu um. Ekki er hægt að prenta ríkisreikning án undirbúnings, og ekki er hægt að ljúka endurskoðun fyrr en reikningum hefur verið lokað og ríkisreikningur prentaður. Það er hægt að undirbúa, en ekki fullgera neitt áður, m. a. af því, að endurskoðendur verða að ganga úr skugga um, að það, sem þeir eru búnir að endurskoða samkv. frumgögnum, hafi síðan komizt óbreytt á prent og samræmi ekki raskazt við breytingar í reikningslokin.

Miklu meiri von væri um að geta fylgt ákvæðum till., ef haustþing væru lögboðin, en það eru þau ekki. Ég tel æskilegt, að landsreikningur þyrfti ekki að verða síðbúnari en svo, að hann gæti komið fyrir haustþing, ef haldið yrði, næsta ár eftir reikningsárið. En stundum hefur það dregizt nokkuð fram á haustið, að reikningum yrði lokað. Það er vitanlega allt of seint og tefur endurskoðunina óhóflega. En þeir tímar, sem hafa verið undanfarið, hafa raskað þessu, eins og svo mörgu öðru. Okkur er ljóst, að það er dregið að loka reikningunum meira en viðunandi er, og það þarf að laga. En ég hygg, að hæpið sé að orða þessa ályktun svona. Ég hef ekkert á móti þessari till. annað en það, að hún fær tæplega staðizt, a. m. k. verður þá að breyta öllum vinnubrögðum frá rótum. Þá þyrfti að byrja að loka reikningunum um áramót og flýta síðan prentun og yfirskoðun, allt þyrfti að ganga fyrir sig í byrjun ársins. Á fáum mánuðum yrði öllu að vera lokið. Ég hef ekki meira en svo trú a því, að þetta takist (GJ: Hv. þm. skilur ekki orðalag till., kann ekki að lesa.) (Forseti (GSv): Hv. þm. ætti að biðja um orðið og færa rök fyrir skoðun sinni heldur en grípa svona fram í.) Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp ályktunina: Tillgr. skal orða svo: Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um, að endurskoðun og útgáfu ríkisreiknings ásamt athugasemdum verði hraðað svo, að hann geti jafnan legið fyrir til samþykkis fyrir lok næsta árs á eftir.

Mér finnst till. nokkuð ljóst orðuð, og ég hélt ég mundi skilja hana. En ég sé á innskoti hv. þm. Barð., að svo muni ekki vera. Er mér þá ekki grunlaust um, að hv. þm. muni meina allt annað en till. hljóðar upp á. Ég vil leyfa mér að taka árið 1944 sem dæmi. Eftir orðalagi till. þarf reikningur ársins 1944 að liggja fyrir til samþ. á þingi 1945 og fá afgreiðslu. Ég hélt, að árið 1945 væri næsta ár á eftir 1944. Það kann að vera, að hjá sumum sé þetta allt öðruvísi. En í mínum barnalærdómi stóð nú þetta. Við lifum að vísu á byltingartímum, og nýsköpunin er í fullum gangi, en þetta hélt ég mundi standast allar byltingar. Ef önnur er meiningin, þá er æskilegt, að það komi fram. Eftir því, sem till. er orðuð, get ég ekki skilið hana öðruvísi. Og út frá því hef ég svo talað. Svo skal ég ekki fara fleirí orðum um þetta, en vona, að frsm. gefi skýringu á því, ef skilja á þetta öðruvísi.