07.02.1945
Sameinað þing: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (5704)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Hv. 1. þm. Árn. hefur gert athugasemdir við þessa till. og telur, að orðalagið fái ekki staðizt, a. m. k. ef þing kemur saman eins og nú er lögákv., 15. febr. En ég vil halda því fram, að þótt þing komi saman 15. febr. og haustþing verði ekki, þá megi samþ. till. óbreytta. Hins vegar er það vitað, að þing hefur nú verið haldið á haustin, og segja mætti mér, að svo muni það verða hér eftir. Við skulum fyrst athuga það, ef þing kæmi saman 15. febr. og verði lokið í apríl, maí eða júní, þá ætti þessi till. að geta staðizt. Vitanlega yrði að taka upp ný vinnubrögð við endurskoðun og bókhald, eins og hv. 1. þm. Árn. sagði. Ríkið er að vísu fyrirferðarmeira en önnur fyrirtæki, t. d. bankar og Eimskipafélagið, en þau draga ekki að loka reikningum sínum langt fram eftir árinu eða að fá þá endurskoðaða. Hv. þm. talaði um, að ekki væri hægt að loka reikningunum vegna þess, að innheimtumenn hefðu ekki skilað af sér fyrr en í apríl. En mér finnst óþarft að gefa þessum innheimtumönnum svo langan frest. Þeir eiga að geta skilað af sér í jan. eða febr. Og ríkið á að loka reikningum sínum í jan.—febr. eins og önnur fyrirtæki. Þótt ríkisbáknið sé fyrirferðarmeira en önnur fyrirtæki, hefur það þeim mun fleiri menn í sinni þjónustu. Þess vegna eiga verk hjá ríkinu að ganga eins fljótt og hjá smærri fyrirtækjum.

Ég verð að taka undir það, sem hv. þm. Barð. skaut inn í ræðu hv. fyrri þm. Árn. Ég fæ ekki betur séð en hv. fyrri þm. Árn. hafi ekki skilið till. rétt, þar sem hann segir, að samkv. orðalagi hennar verði að samþ. reikninginn frá 1944 á þingi 1945, jafnvel þótt því verði lokið í maí eða júní. En till. segir aðeins, að endurskoðun og útgáfu ríkisreiknings ásamt athugasemdum verði hraðað svo, að hann geti jafnan legið fyrir til samþykkis fyrir lok næsta árs á eftir. Ef ekki er hægt að samþ. þá á febr.-þinginu og ekki situr haustþing, þá bíður reikningurinn fram yfir áramót þar til þing situr. Ég þykist vita það, að ef hv. fyrri þm. Árn. athugar þetta og álítur, að reikningurinn frá 1944 geti verið tilbúinn til samþ. fyrir árslok 1945, þá geti hann með góðri samvizku samþ. till. eins og hún er.

Hv. þm. talaði um, að endurskoðun gæti ekki hafizt fyrr en reikningurinn fengist prentaður. En mér finnst það dálítið skrýtið, að hann skuli ekki vera endurskoðaður fyrr en búið er að prenta hann. Mér finnst það ætti að endurskoða reikninginn áður en hann er prentaður, svo að hann sé prentaður eftir að hafa verið leiðréttur. Þannig er það í bönkum og hjá öllum öðrum fyrirtækjum, nema hjá ríkinu. Ef fara á eftir þeim bókhaldsreglum, sem nú eru í gildi, skilst mér það hljóti að eiga að vera þannig, að reikningurinn sé prentaður, þegar búið er að leiðrétta hann, en ekki áður.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég býst við, að þegar hv. fyrri þm. Árn. hefur athugað þetta nánar, þá séum við nokkurn veginn sammála.