07.02.1945
Sameinað þing: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (5707)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Mér skilst, að það sé alveg óþarfi að halda uppi málþófi við fyrri þm. Árn. um þetta, það er svo lítið, sem ber á milli. Hv. fyrri þm. Árn. talaði um það, að ég misskildi það hlutverk, sem yfirskoðunarmenn hefðu, sem væru kjörnir af Alb. Ég vil taka það fram, að hér er ekki um misskilning að ræða frá minni hálfu. Ég veit vel, að hlutverk þessara endurskoðunarmanna er fyrst og fremst að framkv. „krítíska“ endurskoðun. Og þó að svo sé, sé ég ekki, að ástæða sé til, að þessir endurskoðunarmenn haldi að sér höndum meðan prentun fer fram á reikningnum. Þetta liggur í augum uppi, og ástæðulaust er að vera að kýta um það.

Hv. þm. talaði um, að eftir þessu að dæma væri aukaatriði samkv. þessari till., hvenær reikningurinn væri samþ., bara ef hann væri prentaður og endurskoðaður. Þetta er alveg talað út í hött hjá hv. þm. Hann veit, að undireins og reikningurinn hefur verið endurskoðaður, verður hann lagður fyrir Alþ. til samþykktar. Ef haustþing er, verður hann samþ. næsta ár á eftir, en ef ekki er haustþing, þá bíður reikningurinn tilbúinn til samþykktar og verður lagður fyrir Alþ. 15. febr. næsta ár á eftir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, þar sem svo lítið ber á milli, en vona, að hv. d. sjái sér fært að samþ. ályktunina eins og hún liggur fyrir.