07.02.1945
Sameinað þing: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (5711)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Við flm. þessarar till. höfum að sjálfsögðu ekkert á móti því, að hún verði tekin af dagskrá í dag, og ég geri ekki ráð fyrir, að allshn. hafi nokkuð við það að athuga, að það sé gert. Ég býst við, að form. hennar sé fús til þess að kalla saman fund til þess að athuga það nánar, hvort hægt er að hafa tilhögunina betri en hún er nú. Ég fyrir mitt leyti hef ekki trú á því. Hæstv. forseti talaði um, að rétt væri að bera málið undir þá menn, sem kunnugir væru málinu, ef takast mætti að koma málinu í betra horf en nú er. — Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að n. átti tal við skrifstofustjóra í fjmrn. og bar orðalag till. undir hann, en hann hafði ekkert við það að athuga.

Ef hv. þm. er þægð í því, að n. taki till. til nánari athugunar, skal ég, sem flm. og nm., ekki hafa neitt á móti því, því að vonandi gefst tækifæri til þess að samþ. till. þrátt fyrir það.