16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (5747)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ég skal ekki blanda mér í þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál. Ágreiningur virðist að vísu ekki orðinn .mikill og ekki um mikið efni, því að að efninu til virðast þessar till. í rauninni vera alveg samhljóða. Í upphaflegu till. var ákveðið, að ríkið greiddi laun yfirlæknisins við vinnuheimili berklasjúklinga. Þetta þótti mörgum þm. heldur óviðkunnanlegt, að fara að taka upp þá reglu, að ríkið greiði laun við einkastofnun, jafnvel þótt um svo ágæta stofnun væri að ræða sem vinnuheimilí berklasjúklinga. Mér virðist, að þessi ágalli hafi verið sniðinn úr till. við fyrri umr. og þær till., sem hér eru til umr., séu þannig vaxnar, að það skipti mjög litlu, hvor þeirra yrði samþ., vegna þess að í hvorugri till. er tekið fram beinlínis, að ríkið greiði laun til neins manns við þessa stofnun. Hins vegar er í brtt. 1075, sem flutt er af þrem þm., gengið til móts við óskir stjórnar hælisins um það, að í till. sé beinlínis tekið fram, að styrkurinn sé ætlaður til þess að launa forstjóra hælisins. Ég hygg, að stjórn S.Í.B.S. hafi fært fyrir því fullgild rök, að till. sé orðuð á þessa leið. Ég hirði ekki um að taka þau rök upp hér, en a. m. k. verkuðu þau mjög sannfærandi á mig, að nauðsynlegt væri að fá till. þannig orðaða. Nú hefur berklayfirlæknir upplýst, að hann álíti, að ef ætti að greiða laun yfirlæknis við vinnuhæli S.Í.B.S., sem ekki gegndi neinu öðru starfi, þá væru launin of há. En hins vegar telur berklayfirlæknir, að það sé svo mikil vinna umfram sjálf læknisstörfin við hælið að hafa á hendi framkvæmdastjórn, svo sem ætlazt er til, að yfirlæknir þar hafi, að launin séu sízt og há, þegar saman eru lögð bæði þessi störf. Það veltur á mjög miklu, að vel takist um framkvæmd þessa máls þegar í byrjun, ekki eingöngu fyrir ríkið, heldur einnig fyrir þá, sem þarna dveljast, og ég hygg, að það detti engum í hug að neita því, að þær upplýsingar, sem berklayfirlæknir hefur gefið um þessi væntanlegu störf, séu réttar. Ég vil lýsa því yfir, að þó að till. á þskj. 1075 verði samþ., þá mundi ég fyrir mitt leyti greiða sömu fjárhæð úr ríkissjóði eins og ef till. á þskj. 1059 yrði samþ. Hins vegar sé ég ekki, að það sé neinn verulegur munur á till. annar en sá, að með brtt. 1075 er gengið ríkissjóði að kostnaðarlausu á móts við óskir hælisins, og vil ég þess vegna mæla með því, að sú brtt. verði samþ. Mér finnst, að sá ágreiningur, sem upphaflega var um þessa till., sé burtu fallinn, hvor till., sem samþ. er, en vil mæla með brtt. af þeim ástæðum, sem ég hef tilgreint. Ég vil vænta þess, að afgreiðslu þessa máls geti nú orðið lokið og um það þurfi ekki að verða miklu meiri ágreiningur.