27.01.1944
Sameinað þing: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (5750)

Þormóðsslysið

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Fyrir tæpu ári skeði hér eitt hið hörmulegasta slys, sem komið hefur fyrir íslenzku þjóðina, hið svo kallaða Þormóðsslys. Rétt á eftir óskuðu eigendur skipsins eftir því, að sjódómur gengi um það mál. Og síðar var gerð fyrirspurn hér á Alþ. út af slysinu, og lýsti þá hæstv. atvmrh. yfir, að málið væri afhent sjódómnum til rannsóknar. Og nokkru síðar var enn fremur borin fram till. til þál. hér á hæstv. Alþ. um að skipa sérstaka rannsóknarnefnd í þetta mál.

Nú er liðið nærri heilt ár, án þess að nokkuð hafi heyrzt um málið, þrátt fyrir það, þótt gerðar hafi verið fyrirspurnir um það á hæstv. Alþ., og þrátt fyrir það, þótt eigendur skipsins hafi persónulega snúið sér til ráðuneytisins, og þrátt fyrir það, að blöðin hafi margoft spurt um þetta mál. En það eina, sem vitað er um málið, er, að sjódómurinn mun hafa skilað gögnum sínum til ráðuneytisins í byrjun september s.l., og þeim mun hafa verið haldið þar án frekari aðgerða um 5 mánaða skeið.

Nú hefur það skeð, að í dagblaðinu Vísi, í því eina blaði, sem hefur tekið að sér að verja hæstv. ríkisstjórn, — og er ég út af fyrir sig ekkert að gera aths. við það, — birtist löng grein um þetta mál með upplýsingum, sem almenningi er ekki kunnugt um, að hafi þekkzt áður. Og þar er sveigt að þeim, sem hafa látið umbyggja þetta skip, Þormóð, þannig, að þær aðgerðir og breyt., sem gerðar hafi verið á skipinu, standi í beinu sambandi við hið hörmulega slys.

Í tilefni af þessu vil ég gera fyrirspurnir til hæstv. atvmrh. Í fyrsta lagi, hvort þessar yfirlýsingar hafi verið gefnar úr rannsóknarskjölum frá sjálfu ráðuneytinu eða frá sjódómnum. Og í öðru lagi, ef svo er ekki, hvort ekki sé ástæða til þess að láta kalla þetta vitni sérstaklega fyrir sjódóminn, sem svo mjög þykist vita um þessi mál, að það þykist hafa rétt til þess að birta sterkar ádeilur á ákveðna aðila, áður en nokkuð er birt um sjálft málið.

Ég vil í tilefni af þessu geta þess hér, að öll rannsókn þessa máls hefur farið fram með leynd, og það svo mikilli, að beinum aðilum, svo sem aðstandendum og eigendum, hefur verið bannað að vera við réttarhöldin. Ég tel, að þetta hafi verið mjög óheppilegt og aðeins til þess að skapa þá skoðun á málinu, að hér sé verið að leyna einhverju, sem almenningur má ekki vita. En enn óheppilegra er þó það, að rannsóknarskjölunum hefur verið haldið leyndum mánuðum saman hjá ríkisstjórninni án þess að þau væru birt almenningi, svo að mönnum væri kunnugt hið raunverulega í málinu. Sem dæmi um það, hve mikil leynd hefur verið yfir rannsókninni, vil ég upplýsa, að mér er kunnugt um, að þegar vitað var, hvar flakið af skipinu var niður komið og mótorskipið Ægir var sent á vettvang til þess að reyna að ná því upp, var eigendum skipsins neitað um leyfi til að vera með í þeirri ferð, svo þeir mættu fullvissa sig um, ef kostur væri á að vita, hvort flak það, sem hér um ræðir, væri af því skipi eða einhverju öðru skipi. Það hefur ekki heldur heyrzt frá ríkisstjórninni síðan, hvar þetta flak væri niður komið, hvort það hefur þekkzt, eða neitt annað, er bent gæti á eða gefið upplýsingar um, hver tildrögin hefðu verið að hinu sorglega slysi.

Ég vildi leyfa mér að benda á, að í sambandi við önnur slys og óhöpp, sem skeð hafa hér við land á síðasta ári, hafa verið harðskeyttar deilur og ásakanir, bæði í dagblöðum og einkum og sér í lagi hafa komið tvær slíkar ádeilugreinar fram í Vísi, eina stuðningsblaði hæstv. ríkisstjórnar. Fyrir skömmu var ákaflega sterk ádeilugrein í Alþýðublaðinu út af óhappi, sem kom fyrir á botnvörpungnum Rán. Var málið sett í rannsókn. Að þeirri rannsókn lokinni var kveðinn upp sá úrskurður af þeim mönnum, sem rannsóknina höfðu með höndum, að engir þeir aðilar, sem sakaðir voru í Alþbl., hefðu átt nokkra sök á því óhappi. En af því opinbera hefur engin tilraun verið gerð til þess að láta þá aðila sæta fullri ábyrgð, sem komu þeim ásökunum af stað, sem hér um ræðir. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvort þess sé að vænta, þegar slíkt kemur fyrir, að stórar og þungar ásakanir eru bornar á aðila og þeir svo sýknaðir með dómi af þeim ásökunum, að hæstv. ríkisstjórn láti einnig höfða mál á þá menn, sem vísvitandi og í einhverjum beinum tilgangi leyfa sér að bera fram slíkar ásakanir á saklausa aðila.

Ég vil einnig leyfa mér að benda á, að það eru mjög þungar ásakanir bornar á útgerðarmenn í heild, á sjómenn og skipstjóra og ýmsa aðra aðila í sambandi við þau slys, sem urðu, er Max Pemberton og Hilmir fórust. Maður sá, sem skrifar um þetta í stjórnarblaðið, þykist vita miklu meira um orsakirnar til skipskaðans, er Hilmir fórst, heldur en nokkur annar maður hefur þótzt bær að dæma um hér á landi, og er ekkert myrkur í máli um alls konar getsakir og ásakanir. Ég ætla ekki að fara hér út í þau atriði, hvernig hrekja má ýmislegt, sem þar er sagt, og hversu fráleitar þær upplýsingar eru, sem birzt hafa í blaðinu um þetta atriði, en vil hins vegar benda á, hve hættulegt það er fyrir þjóðina, að þannig sé verið að veikja það traust, sem almenningur verður að bera til skipaskoðunar ríkisins. Einkum er það óheppilegt, að verið sé að koma fram með alls konar ágizkanir um orsakir til slysanna, á meðan verið er að athuga, hvort unnt sé að tryggja eftirlifandi erfingjum bætur frá stríðsslysatryggingunni fyrir skipshafnirnar. Ég vil því vænta þess, að hæstv. ríkisstjórn hlutist til um það, að sú n., sem nú verður skipuð til þess að rannsaka þessi ákveðnu slys. sem hafa orðið hér, verði einnig látin um leið rannsaka þessi atriði öll, þ.e. á hverju byggðar eru þær þungu ásakanir, sem stjórnarblaðið hefur í 17. og 20. tölublaði þ.á. borið á þessa aðila. sem ég hér hef minnzt á.

Enn fremur vildi ég mega spyrja, hvort þess væri að vænta, í fyrsta lagi: að sú rannsókn, sem fram á að fara út af þessum síðari slysum, verði látin fara fram fyrir opnum dyrum, — því að til þess ætlast þjóðin áreiðanlega, — í öðru lagi, að ef þeir aðilar, sem deilt er á, verða fundnir sekir, hvort þeir verði látnir sæta ábyrgð fyrir það, sem vítavert hefur verið í framkomu þeirra, og í þriðja lagi, ef allir aðilar, sem bornir eru sökum. verða sýknaðir, hvort þá megi vænta þess, að hæstv. ríkisstjórn láti þá menn sæta ábyrgð, sem svo þungar ásakanir hafa borið á aðra að ósekju í sambandi við þessi slys.

Ég vil einnig leyfa mér í sambandi við þetta mál að benda á, að það munu vera eins dæmi, að blað, sem telur sig stuðningsblað ríkisstjórnar, skuli ráðast svo hatramlega á ríkisstofnun eins og gert er í þessum tveimur greinum í Vísi, þ.e. skipaskoðun ríkisins, sem hæstv. atvmrh. er yfirmaður yfir og á hverjum tíma getur fyrirskipað og á að fyrirskipa að rækja starf sitt eins og vera ber. En skeytunum í Vísi er beint langsamlega hvatvíslegast að skipaskoðuninni og þar með persónulega að hæstv. atvmrh., sem ber fulla ábyrgð á þeirri stofnun.