16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í D-deild Alþingistíðinda. (5751)

242. mál, vinnuhæli berklasjúklinga

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ég held, að ótti hv. þm. Dal. vegna yfirlæknisnafnsins sé ástæðulaus. Það er svo ákveðið í l., að til þess að reka sjúkrahús eða hæli, þurfi forstöðumann, samþ. af heilbrigðisstjórninni, og í þessu tilfelli er búið að samþ. forstöðumann við þetta hæli, sem heilbrigðisstjórnin hefur tekið gildan. (HelgJ: Er það í reglugerð sambandsins?). Það er samkvæmt l., og ég held, að hv. þm. geti sannfært sig um það með því að líta í l. Hvað því viðvíkur, að héraðslæknir Álafosshéraðs yrði forstöðumaður við þetta hæli, þá er það að segja, að hann er ekki sérfræðingur í berklasjúkdómum og hefur þess vegna ekki þá möguleika til að veita þessu hæli forstöðu sem sá maður hefur, sem stj. hælisins þegar hefur ráðið til þess. Hefði hins vegar Álafosslæknishérað verið laust, hefði mátt athuga þetta atriði, þó þannig, að hælið hefði ráðið sérstakan framkvæmdastjóra. En það er ekki víst, að það hefði á nokkurn hátt orðið ódýrara, vegna þess m. a., að sá maður, sem stj. hælisins valdi fyrir lækni hælisins, hefur kynnt sér þessi störf sérstaklega utanlands og hefur sérstakan áhuga fyrir þessum málum og sérþekkingu á berklalækningum; hann hefur einnig verið aðstoðarmaður við berklahælið á Vífilsstöðum. Ég sé ekki annað en það sé sjálfsagt fyrir Alþ. að koma til móts við stj. S.Í.B.S., eins og farið er fram á með brtt. 1075, þannig að ákveðinn styrkur gangi til þess að launa mann, sem bæði er forstjóri hælisins og framkvæmdastjóri. Þar er ekki sagt, að ríkið greiði þessum manni laun, heldur er það gert að skilyrði, að styrkurinn gangi til þess yfirlæknis vinnuheimilisins, sem sé jafnframt framkvæmdastjóri þess.