27.01.1944
Sameinað þing: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (5757)

Þormóðsslysið

Gísli Jónsson:

Sjódómurinn hefur fyrir 5 mánuðum skilað skjölum sínum út af rannsókninni á Þormóðsslysinu. Ég vil benda á, að ráðuneytið getur hvenær sem er skipað framhaldsrannsókn, og það er það, sem ég fór fram á, vegna þess nýja vitnis, sem komið hefur fram. Það er ekki nóg að segja. að skýrslan verði birt, þegar búið sé að athuga hana í ráðuneytinu. Hún er nú þegar búin að vera þar í 5 mánuði. Ég á kröfu á því, að þetta sé ekki dregið, bæði sem þm. og sem aðili í málinu.

Ég vil enn fremur, í sambandi við ásakanir í garð skipaeftirlitsins, benda á, að það voru bornar á það þungar sakir út af atviki, sem kom fyrir á Rán, þegar ráðuneytið hafði gefið almenningi yfirlýsingu um, að engin ástæða hafi verið fyrir hendi til slíkra saka á hendur neinum aðila, — hvers vegna var þá ekki um leið fyrirskipuð málshöfðun af ráðuneytinu út af svo veigamiklum og þungum ásökunum og þeim, sem komið hafa fram í Vísi, án þess að höfundur væri fær um að sanna þær eða yfirleitt að bera fram nokkuð sér til málsbóta? En nú er mér sagt, að greinin í Vísi hafi verið birt með vitund og vilja hæstv. fjmrh. Ég veit ekki, hvort það er satt, en það væri gott, að hann upplýsti það. Það verður ekki hikað við að kafa til botns í þessu máli. Hér er um svo alvarlegar ásakanir að ræða í garð skipaskoðunarinnar, útgerðarmanna og jafnvel sjálfra sjómannanna, að þess verður að krefjast, að rannsókn fari fram opinberlega og niðurstöðurnar verði birtar, hvort sem sökin er hjá þeim ásökuðu eða þeim, sem ásaka.