27.01.1944
Sameinað þing: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (5760)

Þormóðsslysið

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Ég undrast ræðu hv. 6. þm. Reykv., þar sem hann spurði, hvort atvmrn. hefði fyrirskipað rannsókn fyrir luktum dyrum. Honum ætti að vera kunnugt, að dómurinn sjálfur ákveður, hvernig háttað skuli um rannsóknina.

Um hitt, að ráðuneyti mitt leyfi sér að ákveða, hvenær niðurstöður sjódómsins skuli birtar, er líka undarlegt, að hann skuli spyrja. Það hefur verið venja að birta ekki slík gögn, fyrr en ráðuneytið hefur athugað þau. Um það, að ráðuneytin séu að velkja málinu á milli sín, þá vísa ég því frá, því að atvmrn. afgreiddi það til dómsmrn., þegar sjódómurinn taldi sig ekki geta lengur haldið rannsókn málsins áfram.

Viðvíkjandi því, að aðgerðir þurfi til bóta skipaflotanum, þá er það rétt. En fyrst þarf málið athugunar við og rannsóknar. Það eru nú þrír dagar síðan ég fól sjódóminum að athuga, hvort öryggi skipa væri teflt í hættu vegna breytinga á þeim og ofhleðslu. Þetta er nú í rannsókn. Þegar niðurstöður sjódómsins eru fyrir hendi, mun ráðuneytið fyrirskipa þær aðgerðir, sem niðurstöður rannsóknarinnar gefa tilefni til.