27.01.1944
Sameinað þing: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (5761)

Þormóðsslysið

Bjarni Benediktsson:

Ég vil einungis upplýsa, að viðvíkjandi fyrirspurn minni um það, hvaða rétt hann hefði til að liggja á skjölum frá sjódóminum, — hefur hæstv. ráðh. nú lýst því yfir, að hann hafi til þess enga heimild, og hefur hann þá borið sig saman við fyrrv. forseta sjódómsins. Það er ljóst samkvæmt hans eigin yfirlýsingu, að hann telur sig ekki hafa heimild til að varpa leynd á málið. Um hitt umræðuefnið, hvort það, að rannsókn var fyrir luktum dyrum, var runnið frá sjódóminum sjálfum eða ekki, hygg ég, að upplýstst hafi, að það var runnið frá hæstv. ráðh. Þá hefur hann upplýst, að hann hafi nú skipað rannsókn á nýju slysi, en samkvæmt lagalegri skyldu á sjódómurinn að láta slíka rannsókn fara fram, án þess að hana þurfi sérstaklega að fyrirskipa.

Hitt er rétt, sem hann sagði, að fyrr en rannsóknum er lokið, verður ekki dreginn lærdómur af þeim slysum, sem orðið hafa. En hitt mun þingheimur sammála um, að ef lærdóm ætti að draga af Þormóðsrannsókninni, þá væri ekki líklegasta leiðin til þess. sú, sem tekin hefur verið, að hæstv. atvmrh. lætur hana frá sér fara án þess að gera nokkrar ráðstafanir þar um, og lætur hana liggja hjá dómsmrn. í því skyni að athuga, hvort ekki sé hægt að höfða mál gegn einum eða fleiri mönnum. Mér dettur ekki í hug að ásaka hann um illvilja eða, eins og komizt er að orði í einu blaði höfuðstaðarins, að „myrða íslenzka sjómenn í fjárgróðaskyni.“ Slík ummæli eiga ekki við og eru vítaverð, og sýnist ástæða til, að ábyrgð sé komið fram gegn slíkum orðhákum. Hitt er ljóst, að sú aðferð, sem ráðuneytið hefur haft, þarfnast endurbóta við frá því, sem verið hefur.