27.01.1944
Sameinað þing: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (5762)

Þormóðsslysið

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Það er ekki tilgangur minn að lengja þessar umræður, en mér finnst satt að segja hv. 6. þm. Reykv. hafa notað nokkuð stór orð, þar sem hann hefur ásakað atvmrh. um að „hafa legið á leyniskjölum.“

Annars stend ég upp vegna þess, að ég sem fyrrv. formaður sjódóms Reykjavíkur kann skil á því, hvernig þar er með mál farið. Svoleiðis hefur gangurinn verið, að það, sem ekki hefur verið beinlinis lögskipað, að sjódómurinn tæki til meðferðar, hefur atvmrh. lagt fyrir hann að fara með. Um Þormóðsslysið var álitamál, hvort sjódómurinn færi með það. Það þótti heppilegast að fela það sjódómi Rvíkur. Hann lauk aðalrannsókninni í septembermánuði, að ég hygg. Þá býst ég við, að atvmrh. hafi hegðað sér alveg á venjulegan hátt, með því að vísa málinu til dómsmrn., ef hann hafði hugmynd um, að sá opinberi ákærandi í þessu landi, dómsmrh., kynni að telja ástæðu til að fyrirskipa málshöfðun gegn einum eða öðrum.

Það var fyrirhugað af sjódómnum að gera einhverjar frekari rannsóknir (ég hef heyrt það utan að), og dómsmrh. hefur því ekki tekið sínar ákvarðanir eins fljótt og hann hefði annars gert. En þessi staðhæfing, að ráðh. „liggi á leyniskjölum,“ finnst mér ekki eiga við, á meðan dómsmrh. er ekki búinn að ákveða, hvað gera skuli í málinu. En ég veit ekki til, að slík rannsóknarskjöl geti talizt opinber eða geti verið til opinberunar, fyrr en annaðhvort hefur verið ákvörðuð málsókn eða ákveðið að láta hana falla niður. En því verður dómsmrh. að svara, hvort rannsókn málsins í ráðuneyti hans hefur dregizt lengur en þurfti.

En þó að Þormóðsrannsókninni sé ekki að fullu lokið, finnst mér það mál ekki koma við málinu um togarana. Þormóður var flutningaskip. Að minni hyggju er ekki hægt að setja rannsókn um togarana í samband við Þormóðsslysið, því þar er fjallað um hleðslurúm togaranna. Annars er ég ekki fagmaður í þeim sökum og skal því ekkert um það mál segja, að því órannsökuðu. En mér þótti rétt að taka fram það, sem ég hef sagt, vegna þess að dómsmrh. er ekki viðstaddur.